fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025
Fréttir

Hjólhýsaeigendur á Laugarvatni telja sveitarstjórn hafa dregið sig á asnaeyrunum – „Þetta er svo hræðilega ljótt mál“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Þriðjudaginn 12. júlí 2022 21:58

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eins og DV greindi frá í lok síðasta mánaðar hefur sveitarstjórn Bláskógarbyggðar hafnað samstarfi við Samhjól, félag hjólhýsaeigenda á Laugarvatni, um áframhaldandi rekstur hjólhýsabyggðar á svæðinu. Við hjólhýsaeigendum blasir við það eitt við að þurfa nú að fjarlægja hjólhýsi sín en þarna hefur verið hjólhýsabyggð í um hálfa öld og einn eigandinn hefur haldið hjólhýsi á sama blettinum við Laugarvatn í 43 ár.

Ákvörðunin kemur í kjölfar tæplega þriggja ára stopuls samningaferlis þar sem Samhjól telur sig ávallt hafa verið tilbúið að ganga að öllum kröfum sveitarstjórnar varðandi endurnýjun innviða, t.d. eldvarna, en þegar upp er staðið er eins og aldrei hafi staðið annað til en að útrýma hjólhýsabyggðinni við Laugarvatn. Það er að minnsta kosti upplifun hjólhýsaeigenda á svæðinu.

„Elsta fólkið okkar, öryrkjar, er að tapa milljónum. Þetta er svo hræðilega ljótt mál og illa unnið,“ segir Hrafnhildur Bjarnadóttir, formaður Samhjóls. Hrafnhildur býr í Grindavík en á hjólhýsi á Laugarvatni. Segir hún alla hjólhýsaeigendur þar búa annars staðar en þetta sé sumarbyggð. „Ég er að horfa upp á grátandi gamalmenni sem þurfa að gefa eignirnar sínar, hafa engin önnur ráð.“

„Í ágúst 2019 samþykkir sitjandi sveitarstjórn að hefja undirbúinig að nýju deiliskipulagi hjólahýsasvæðisins á Laugarvagni og það gaf okkur vonir um að það ætti að gera þetta flott,“ segir Hrafnhildur í viðtali við DV og greinir frá því að hjólhýsaeigendur hafi viðrað áhyggjur sínar af brunahættu allt frá árinu 2013.

„Í september árið 2020 fengum við fund með öllum viðbragðsaðilum á svæðinu, t.d. slökkviliðsstjórum, auk sveitarstjórnar og rekstraaðila. Á fundinum var talað um framtíð hjólhýsasvæðisins en þann 17. september var tekin ákvörðun um að loka svæðinu því okkur væri hætta búin vegna skorts á brunavörnum. Þá komum við með tilboð sem hljóðaði upp á 16 til 20 milljónir króna í peningum. Tækjakostur, mannafli og ýmislegt í kringum þetta, til að leiðrétta eldvarnarvandræði. Þetta var í október 2020. Svo þróast málin áfram. Þau svara þessu tilboði aldrei formlega en svo fer sveitarfélagið að bera fyrir sig byggingarreglugerð nr. 112/2012, um að hún standi í veginum því samkvæmt henni séu öll hjólhýsi túlkuð sem mannvirki. Auk þess væri ekki til lagaheimild á Íslandi fyrir hjólhýsi almennt. Sveitarstjóri sagði við mig á fundi, ég man alltaf eftir þessu: Ef þú finnur leið framhjá þessu, Hrafnhildur, þá getum við samið við þig. Þá ætla ég bara að fara í það, sagði ég og ég gerði það, það er búið að breyta byggingarreglugerðinni, það er komin lagaheimilid – en enginn samningur.“

Segir óæskileg hagsmunatengsl fyrir hendi

„Á sama tíma og lagaheimild fyrir hjólhýsi var ekki komin í gegn þá var opnað í Úthlíð samskonar svæði, bara í kortersfjarlægð frá okkur. Það sem er svo ljótt við það er að lögmaður sem sveitarstjórnin nýtir sér ráðgjöf hjá til að loka okkar svæði, þriðjungseigandi í þeirri lögmannastofu, hann á helminginn í Úthlíð,“ segir Hrafnhildur og víkur síðan sögunni að úrslitafundi sem haldinn var þann 18. mars síðastliðinn. Hún telur að það sem gerðist eftir þennan fund sé til að draga mjög í efa heilindi sveitarstjórnar í málinu.

Á fundinum voru af hálfu sveitarfélagsins sveitarstjóri, oddviti og sviðsstjóri. Sviðsstjórinn lagði fram blað með kostnaðargreindum kröfum um endurbætur á svæðinu. DV hefur þetta minnisblað undir höndum. Þar er gert ráð fyrir endurbótum á vatnsveitu, fráveitu, salernisaðstöðu, deiliskipulagi, rafmagni og brunavörnum, fyrir samtals rétt tæplega 50 milljónir króna.

„Ég sagði þarna á fundinum að þetta væri bara frábært. Við myndum örugglega klára þetta,“ segir Hrafnhildur en hún telur að ætlunin hafi verið að letja Samhjól til að halda fyrirætlunum sínum til streitu.

Næsti fundur með sveitarstjórn var 10. maí og þá var Hrafnhildur orðin vongóð um að framtíð hjólhýsasvæðisins yrði tryggð. „Við vorum komin með góðan meðbyr og ekkert í lögum sem hamlar þessu. En þá ákvað oddviti að skjóta þessu á frest fyrir nýja sveitarstjórn sem tók við eftir kosningar. Fimm gengu úr fráfarandi sveitarstjórn.“

Hrafnhildur segir að hennar upplifun sé sú að nýir sveitarstjórnarfulltrúar séu mataðir af skoðunum annarra á þessu máli. „Nýja sveitarstjórnarfólkið virðist mjög matað. Þau halda því til dæmis fram að sveitarfélagið yrði skaðabótaskylt ef einhver færist í eldsvoða á svæðinu. Það er ekki rétt. Þó að sveitarfélag leigi land undir húsnæði þá er það ekki skaðabótaskylt ef þar verður eldsvoði.“

Hefðu átt að viðurkenna viljaleysi sitt fyrr

Hrafnhildur segir augljóst að aldrei hafi staðið til að ganga til samninga við hjólhýsaeigendur á svæðinu. Heiðarlegra hefði verið að segja svo strax. „En loksins eftir 21 mánuð viðurkenna þau að það sé ekki vilji,“ segir Hrafnhildur og bendir á að sveitarstjórn hafi óskað eftir viljayfirlýsingu Samhjóls um að gengið yrði að kröfum um fjármögnun umbóta.

„Ég fer í hellingsvinnu við að ná í alla félagsmenn, alls 160 manns skrifuðu undir yfirlýsinguna, meðal annars fólk um nírætt, sem vildi skrifa undir í eigin persónu. Það er mikil samstaða og samhugur í þessu samfélagi,“ segir Hrafnhildur og er afar sár yfir því að öll þessi vinna og þessi samningsvilji hafi verið til einskis. Bókun sveitarstjórnar um málið þann 22. júní markar endalok hjólhýsabyggðarinnar við Laugarvatn. Bókunin er eftirfarandi:

„Sveitarstjórn Bláskógabyggðar telur ekki mögulegt að taka því tilboði sem fram kemur í erindi Samhjóls, félags hjólhýsaeigenda á Laugarvatni, dags. 22. mars 2022, og vísar til fyrri ákvörðunar sveitarstjórnar um að endurnýja ekki leigusamninga. Sveitarstjórn Bláskógabyggðar er bundin almennum grundvallarreglum stjórnsýsluréttar sem gilda um þau tilvik þegar opinber aðili úthlutar takmörkuðum gæðum sem leiða til þess að sveitarfélaginu er nauðsynlegt að auglýsa með opinberum hætti eftir rekstraraðila svæðisins eða leigutaka landsins. Sveitarstjórn telur ekki mögulegt að fara þá leið að gera áframhaldandi samning við Fýlinn slf. sem hefur staðið að rekstri svæðisins undanfarin ár enda leiða engin rök til forgangsréttar þess aðila umfram aðra. Sveitarfélagið getur því ekki tryggt Samhjóli eða núverandi rekstraraðila, umfram aðra, afnot af svæðinu. Ennfremur er ekki vilji sveitarstjórnar að endurskoða fyrri ákvörðun um lokun hjólhýsasvæðisins. Það er afstaða sveitarstjórnar að nauðsynlegt sé að rýma svæðið áður en ákvörðun verði tekin um framtíðar nýtingu þess. Sveitarstjóra er falið að fylgja ákvæðum leigusamninga eftir.“

Hefðu þurft að byrja með autt blað

Í viðtali á Bylgjunni í dag sagði Ásta Stefánsdóttir, sveitarstjóri Bláskógabyggðar, að nokkur brunatilfelli hefðu orðið á svæðinu og aðeins lukka komið í veg fyrir að ekki fór verr. Hún segir að til að hafa brunavarnir fullnægjandi á svæðinu þyrfti að byrja alveg upp á nýtt, rýma svæðið og grisja skóg, byrja aftur með autt blað.

Hrafnhildur Bjarnadóttir var í sama þætti og minnti þar á að Samhjól hefði viðrað áhyggjur af brunavörnum allt frá árinu 2013. „Þetta er eitthvað sem við hæglega hefðum getað lagað,“ sagði Hrafnhildur. Segir hún þau rök ekki halda vatni að ryðja þurfi burt heilu hverfi til að koma brunavörnum í skikkanlegt lag. Sagði Hrafnhildur að hjólhýsaeigendur á svæðinu hefðu verið tilbúnir að gera það sem gera þurfti til að fullnægja kröfum sveitarstjórnar um brunavarnir.

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Aftur sektaðir af KSÍ
Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Höfuðkúpubrotnaði í stórfelldri líkamsárás

Höfuðkúpubrotnaði í stórfelldri líkamsárás
Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Réðst á lögreglumann hjá bráðamóttökunni

Réðst á lögreglumann hjá bráðamóttökunni