Ráðist var á unga konu fyrir utan Þórufell 14 í Breiðholtinu í gær. Konan var mætt þangað til að selja síma en þá kom maður sem mundaði hníf og otaði honum að henni. Konan náði sem betur fer að koma sér í burtu og hringja í lögregluna.
Móðir ungu konunnar útskýrir nánar hvað gerðist í samtali við DV. „Hún átti í raun og veru að hitta einhvern þarna út af síma sem hún var að selja fyrir kærastann sin,“ segir hún.
„Svo kemur þessi gaur þarna, reynir að hrifsa símann af henni og otar að henni hníf. Það vill svo til að hún fraus ekki nema í smá stund þannig hún náði að hrifsa aftur til sín símann og öskra eins og brjálæðingur en hún endaði í jörðinni. Hún náði svo að forða sér inn í bíl og hringja í lögregluna.“
Hvorki móðirin né dóttir hennar vita hvort maðurinn sem um ræðir sé sá sami og ætlaði að kaupa símann. „Við vitum það ekki. Hann réðist bara að henni með hníf og var ógnandi, náði að fella hana í götuna en hún náði einhvern veginn yfirhöndinni.“
Ungu konunni er verulega brugðið samkvæmt móður hennar. „Henni er rosalega brugðið náttúrulega, fólk er ekki vant því að það sé ráðist á það með hníf,“ segir hún.
Dóttir hennar er rúmlega tvítug en móðirin segir að það skipti ekki máli hvað fólk sé gamalt, það sé ekki skemmtilegt fyrir neinn að lenda í atviki sem þessu. „Ég dáist bara að því að hún skyldi ekki frjósa og ekki geta gert neitt, að hún skuli hafa náð að öskra og náð að koma sér undan,“ segir hún.
„Manni er bara illa við að eitthvað svona gerist, sama hvort hún lendi í þessu eða einhver annar, manni er bara illa við að það sé verið að ota hníf að fólki yfirhöfuð.“
Móðirin hefur óskað eftir vitnum að árásinni en hefur ekki heyrt í neinum, hún furðar sig á því þar sem hún segir að iðulega sé fólk vakandi yfir því sem gerist í hverfinu. „Það er merkilegt að það skuli enginn þykjast hafa séð neitt eða gert neitt. Ég veit að það er mjög vel fylgst með í mörgum húsum,“ segir hún.
„Það er einhver annar sem hefur séð þennan mann, sennilega ráfandi eitthvað inn í garða þarna rétt hjá. Það er stutt síðan það var farið hér í alla bíla og öllu stolið, brotist inn í bílskúra og fleira. Maður er ekkert voða hrifinn af þessu.“
Móðirin segir að lokum að fólk eigi að fylgjast betur með og passa upp á hvort annað. „Mér finnst bara að fólk eigi ekki að láta þetta afskiptalaust, ef þú sérð svona út um gluggann hjá þér þá áttu að hringja í lögregluna,“ segir hún.
Móðirin óskar enn eftir vitnum að atvikinu og biður þau um að hafa samband við lögregluna fyrir sig í síma 444-1000.