Maður gerði tilraun til ráns í lyfjaverslun í miðborginni á þriðja tímanum síðdegis í dag. Var þetta ungur maður í annarlegu ástandi. Hann ógnaði starfsfólki með byssu en síðar kom í ljós að það var leikfangabyssa. Maðurinn var vistaður í fangageymslu fyrir rannsókn málsins en látinn laus að lokinni skýrslutöku.
Þetta kemur fram í dagbók lögreglu. Þar segir einnig frá því að í hádeginu barst tilkynning um eld í báti við Hafnafjarðarhöfn. Var eldurinn í rafkerfi í vélarrými. Er viðbragðsaðilar mættu á vettvang var búið að slökkva eldinn.
Hraðbanki var skemmdur í Kópavogi snemma í morgun, en reynt var að komast í innihald bankans. Málið er í rannsókn.