Rithöfundurinn Pétur Gunnarsson segir að í ljósi nýlegra atburða sé brýnt að endurnýja bann við skammbyssum með viðauka um vélbyssur og sjálfvirka riffla, að viðlögðum himinháum sektum og refsingum. Þetta kemur fram í grein sem hann skrifar á Kjarnanum undir yfirskriftinni „Til hvers skammbyssur?“
Í greininni rifjar Pétur upp að snemma árs 1968 hafi tvö morð verið framin með skömmu millibili í Reykjavík, bæði með skammbyssum.
„Óhug sló á þjóðina og lögreglan gaf út tilkynningu þar sem allar skammbyssur voru innkallaðar, hvar sem þær kynnu að leynast og hvernig sem til þeirra hefði verið stofnað, að viðlögðum háum sektum. Enn er í minnum byssuhaugurinn sem barst til höfuðstöðva lögreglunnar, allt frá framhlaðningum og byssustingjum til nútíma vígtóla. Skammbyssur voru lýstar óalandi og óferjandi á Íslandi, enda augljóslega ekki ætlaðar til annars en valda ógn og dauða, segir Pétur.
Hann veltir upp spurningunni um tilgang skammbyssa því enginn fari til veiða með skammbyssu, en þær henti vel til að fremja vopnað rán eða drepa fólk.
Þá spyr Pétur hvernig standi á því að hér sé skyndilega allt vaðandi í byssum og skotárásum, og hver hafi eiginlega leyft þær að nýju.
„Nú er svo komið að talað er um að tveir hópar glæpagengja starfi í landinu og lögreglan greinir frá þessu eins og ekkert sé og sýnir því jafnvel vissan skilning – hinn almenni borgari þurfi ekkert að óttast. Maður hefði þvert á móti haldið að áþekk yfirlýsing yrði til þess að allt þjóðfélagið yrði sett á viðbúnaðarstig og þetta mál eitt á málaskrá þingsins þar til yfir lyki,“ segir Pétur sem vill láta banna skammbyssur aftur sem allra fyrst.