Gífurlegt umferðaröngþveiti er nú við verslanirnar IKEA og Costco í Garðabæ vegna malbiksframkvæmda. Ógnarlöng bílalest mjakast mjög hægt áfram. Fréttatíminn greinir frá þessu. „Þetta er alveg fáránlegt, ég er búinn að vera hérna í tvo tíma og margir miklu lengur, ég er búinn að vera hér síðan ellefu í morgun fastur á planinu hjá Ikea og nú er klukkan rúmlega eitt,” segir pirraður ökumaður í samtali við miðilinn.
Framkvæmdirnar eru að stífla umferð langt norðureftir Reykjanesbrautinni eins og sjá má á mynd sem annar ökumaður sendi DV. Sá maður er að reyna að komast upp í Urriðaholt til að afhenda eiginkonu sinni bílinn en hún er að fara að skrifa undir kaupsamning á fasteign. Konan er orðin of sein á þann fund vegna tafanna.
Segir þessi viðmælandi DV að hann færist úr stað en mjakist mjög hægt áfram í áttina að áfangastaðnum.
,,Annað hvort eru jólasveinarnir komnir til byggða og farnir að stjórna þessari vinnu við gatnagerðina hérna eða einhverjir ríkisstarfmenn sem vita ekkert hvað er í gangi í raunheimum. Hérna hafa einhver hundruð bíla verið gjörsamlega fastir síðan í morgun og eru það ennþá,” segir einn ökumaður í samtali við Fréttatímann.