Tveir breskir stríðsfangar, Aiden Aslin og Shaun Pinner, hafa áfrýjað dauðadómi sem dómstóll í Alþýðulýðveldinu Donetsk, héraði í Austur-Úkraínu sem rússneskumælandi aðskilnaðarsinnar og bandamenn Rússa hafa lýst sjálfstætt ríki, kvað upp. Bretarnir voru ákærðir og dæmdir til dauða ásamt marrokkóskum stríðsfanga, Brahim Saadounem í byrjun júní á grundvelli þess að þeir væru málaliðar í Úkraínuher. Ekki liggur fyrir hvort að sá hafi áfrýjað dóminum þó það verði að teljast líklegt.
Áfrýjun Bretanna, sem voru teknir höndunum í úkraínsku hafnarborginni Mariupol í apríl, byggist á því að þeir hafi sannarlega verið fullgildir meðlimir í úkraínska hernum.
Mennirnir höfðu einn mánuð til að áfrýja dómnum en komist æðra dómstig að sömu niðurstöðu verða þeir að óbreyttu leiddir fyrir aftökusveit og skotnir til bana.
Úkraínustjórn hefur lýst því yfir að skilgreini beri alla erlenda sjálfboðaliða sem fullgilda liðsmenn í Úkraínuher og þar með löglega þátttakendur í stríðinu við innrásarher Rússa. Því beri að fara með þá eins og stríðsfanga, í samræmi við Genfarsáttmálann. Þessari skilgreiningu vísa yfirvöld í hinu umdeilda nýja lýðveldi á bug.
Rússland er eina ríki heims sem viðurkennir sjálfstæði Alþýðulýðveldisins Donetsk og nágrannaríkis þess, Alþýðulýðveldisins Luhansk. Saman mynda héruðin tvö svonefnd Donbas-svæði, sem Rússar hafa lagt allt í sölurnar til að sölsa undir sig undanfarnar vikur.
Ólíklegt er talið að áfrýjun Bretanna muni bera nokkurn árangur en hún mun kaupa þeim dýrmætan tíma. Þeirra helsta von er sú að stríðandi fylkingar ákveði að skiptast á föngum.