fbpx
Mánudagur 20.janúar 2025
Fréttir

Segir ýmislegt benda til þess „að þungamiðja Vítalíumálsins snúist um tilraun til stærstu fjárkúgunar Íslandssögunnar“

Ritstjórn DV
Föstudaginn 1. júlí 2022 06:37

Steinbergur Finnbogason og Vítalía Lazareva

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Vítalía Lazareva, sem ásamt einhvers konar kærasta sínum, hefur nú verið kærð fyrir tilraun til fjárkúgunar, er langt í frá sú eina sem glímir við freistnivandann sem skapast hefur við það að sönnunarbyrði réttarríkisins hefur verið aftengd. Það þarf nefnilega ekki meira en prívat fésbókarsíðu til þess að birta ákæru fyrir dómstóli götunnar sem á augabragði úrskurðar um sekt og sér að auki upp á eigin spýtur um refsinguna. Eins og í Vítalíumálinu margfaldast þungi fallaxarinnar ef birtingarformið er þar til gerður hlaðvarpsþáttur blaðamanns við Stundina. Sá spjallþáttur hefur reyndar ekkert að gera með rannsóknarblaðamennsku heldur kranablaðamennsku þar sem hægt er að láta móðan mása um satt eða logið og láta svo aðra fjölmiðla endurtaka málflutninginn í öllum helstu fréttatímum sínum,“

Á þessu orðum hefst aðsend grein lögmannsins Steinbergs Finnbogasonar í Fréttablaði dagsins en þar fjallar hann um mál Vítalíu Lazarevu og þær ásakanir sem hún hefur haldið fram gagnvart þremur þjóðþekktum mönnum. Segir lögmaðurinn það einfaldlega vera fáránlegt að öllum meintum þolendum skuli trúa skilyrðislaust en meintum gerendum ekki.

Sakfelldir af dómstól götunnar

„Í tilfelli mögulegra kynferðisafbrota er þetta sérlega auðvelt þar sem fyrrnefndur dómstóll götunnar hefur ákveðið að þolendum skuli einfaldlega alltaf trúað. Hin hliðin á þeim bjánalega peningi er þá líka sú að meintum gerendum, sem mögulega reyna að bera hönd fyrir höfuð sér, skuli aldrei trúað. Það er ótrúlegur fáránleiki á okkar upplýstu tímum og í okkar siðmenntaða samfélagi, sem almennt viðurkennir að enginn maður geti verið svo sekur að hann eigi sér ekki einhverjar málsbætur,“ skrifar Steinbergur.

Allir eigi rétt á hlutlægri rannsókn fagaðila, bestu mögulegu málsvörn og vel ígrunduðum dómi færustu sérfræðinga.

Segir Steinbergur ennfremur að þremenningarnir í Vítalíumálinu hafi ekki átt sér viðreisnar von í slagnum við dómstól götunnar.

„Við höfum séð það í Vítalíumálinu að aftakan í máli „þriggja miðaldra karlmanna“ eins og Ríkisútvarpið kaus að kalla fórnarlömb Vítalíu í fréttum sínum fyrr í vikunni fór fram á augabragði. Til þessa hefur enginn hinna sakfelldu átt sér viðreisnar von. Enn þá síður gátu þeir áfrýjað úrskurði þessa miskunnarlausa dómstóls eða beðið um endurupptöku málsins. Múgurinn úrskurðar í eitt skipti fyrir öll og snýr sér svo að næstu ofsóknum,“ skrifar Steinbergur.

Gagnrýnir RÚV og Stígamót harðlega

Hann segir að gögn sem fram hafi komið síðustu daga hafi mögulega varpað vafa á þessa atburðarás.

„Gögn virðast hins vegar sýna fram á það með óyggjandi hætti, a.m.k. ef marka má umfjöllun í fjölmiðlum sem staðfest hefur verið af lögmönnum, að þungamiðja Vítalíumálsins snúist um tilraun til stærstu fjárkúgunar Íslandssögunnar. Á milli línanna má jafnvel lesa, eða að minnsta kosti ímynda sér, að núverandi eða a.m.k. fyrrverandi kærustuparið, sem nú hefur verið kært fyrir fjárkúgun, hafi mögulega hannað atburðarásina, eða a.m.k. frá byrjun reynt að nýta hana í samstarfi um fébætur. Væntanlega var markmiðið þá að skipta hagnaðinum eða njóta hans saman,“ skrifar Steinbergur og telur að hinn huglægi dómstóll götunnar búi til lúmskan freistnivanda

Þá gagnrýnir Steinbergur Stígamót og RÚV harðlega. Segir hann að Stígamót séu „tilbúin til þess, eins og dæmin sanna, að taka við fébótum, eða ættum við að segja mútum eða kúgunarfé, fyrir meint, en ósönnuð, kynferðisbrot.“ Þá tekur hann fyrir viðtal RÚV við talskonu Stígamóta í kjölfar fjárkúgunarfréttanna.

„Nánast ekkert var minnst á þetta stærsta fjárkúgunarmál Íslandssögunnar heldur spjallað um málið út frá reynsluheimi „þolendanna“. Ekki var heldur snert á vangaveltum um það hver eða hverjir væru mögulega hinir raunverulegu þolendur í þessu tiltekna máli. Kannski leyfir andrúmsloft rétttrúnaðarins, sem sérstaklega er hafður í hávegum hjá Ríkisútvarpinu, ekki að „þrír miðaldra karlmenn“, og að auki þjóðþekktir og í góðum álnum, geti verið hinir raunverulegu þolendur upploginna saka,“ skrifar Steinbergur.

Lesa má grein Steinbergs í heild sinni á vef Fréttablaðsins

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Fiskiskip rak stjórnlaust upp í fjöru við Patreksfjörð – Skipstjórinn á spítti

Fiskiskip rak stjórnlaust upp í fjöru við Patreksfjörð – Skipstjórinn á spítti
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Pattaya sagður vera of subbulegur staður fyrir samkynja pör að gifta sig á

Pattaya sagður vera of subbulegur staður fyrir samkynja pör að gifta sig á
Fréttir
Í gær

Unglingar með kylfu í verslunarkjarna

Unglingar með kylfu í verslunarkjarna
Fréttir
Í gær

Steingrímur stóð fréttavaktina þegar snjóflóðið féll á Súðavík – „Við vitum að tíminn læknar engin sár, menn læra bara að lifa með sársaukanum“

Steingrímur stóð fréttavaktina þegar snjóflóðið féll á Súðavík – „Við vitum að tíminn læknar engin sár, menn læra bara að lifa með sársaukanum“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Vörubílstjóri þóttist vera annar maður – Var líka fullur og próflaus

Vörubílstjóri þóttist vera annar maður – Var líka fullur og próflaus
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Svona miklum peningum eyddi Reykjavíkurborg í ferðir á einu og hálfu ári

Svona miklum peningum eyddi Reykjavíkurborg í ferðir á einu og hálfu ári
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Áhrifavaldur eitraði fyrir barninu sínu – Vildi fjölga fylgjendum og fá peninga

Áhrifavaldur eitraði fyrir barninu sínu – Vildi fjölga fylgjendum og fá peninga
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Arkitekt telur hægt að bjarga Álfabakkamálinu – Erfiðara að endurvekja traust á skipulagi borgarinnar

Arkitekt telur hægt að bjarga Álfabakkamálinu – Erfiðara að endurvekja traust á skipulagi borgarinnar