Gabriel Jagger, sonur rokkstjörnunnar Mick Jagger, fjárfesti á dögunum í íslenska sprotafyrirtækinu Overtune en það gerði hann í gegnum fyrirtækið Whynow sem hann rekur. Gabriel fjárfesti rúmlega 20 milljónum króna í Overtune sem rekið er af þeim Sigurði Ásgeiri Árnasyni, Jasoni Daða Guðjónssyni og Pétri Eggerz Péturssyni. Vísir greindi frá.
Sigurður Ásgeir, framkvæmdastjóri Overtune. virðist vera ánægður með að fá Gabriel í lið með Overtune en hann segir í samtali við Vísi að um „magnaðan frumkvöðul“ sé að ræða. „Hann vinnur á ljóshraða og hefur ótrúlega þekkingu á sprota geiranum,“ segir Sigurður Ásgeir.
Gabriel er ekki eini stjörnufjárfestirinn í Overtune-teyminu en þeir Charles Huang, stofnandi Guitar Hero og Nick Gatfield fyrrum framkvæmdastjóri Sony Music eru einnig í hópi þeirra sem fjárfest hafa í Overtune.
Overtune gaf fyrr á árinu út samnefnt smáforrit sem gerir notendum kleift að útbúa tónlist á afar einfaldan máta.
„Vinsælir miðlar eins og TikTok og Instagram bjóða notendum sínum ekki upp á það að skapa eigin tónlist þegar efni er birt. Í staðinn fyrir að treysta á núverandi tónlist í efnissköpun hefur Overtune þróað einfalt tól sem gerir notendum kleift að skapa eigið efni frá byrjun til enda,“ segir Jason Daði, sem er markaðsstjóri Overtune, í samtali við Vísi.
Þá segir Jason Daði að Overtune hafi verið gert með það í huga að bjóða hverjum sem er að fanga eigin stemningu með eigin hljóði, óháð þekkingu á tækni og/eða tónfræði.