Krossgáta úr 2. tölublaði tímaritsins Barnagátur frá árinu 2021 hefur vakið töluverða reiði í kjölfar þess sem mynd af henni var deilt á samfélagsmiðlinum Twitter. Ástæðuna fyrir reiðinni má rekja til þess að í gátunni er ein vísbendingin „svertingja“ en lausnin við vísbendingunni er n-orðið.
„7 ára sonur minn var að svara krossgátu í vor og mér var mjög brugðið þegar ég sá orðið sem vantaði í krossgátuna,“ segir konan sem deilir mynd af gátunni á Twitter. „Ég sendi ábendingu á Barnagátur og fékk þetta svar í dag. Er ekki í lagi?“ segir hún svo og birtir svarið sem hún fékk frá þeim sem sjá um að brjóta um blaðið, Pallo ehf.
Eftirfarandi segir í svarinu frá Pallo ehf:
„Daginn, þetta er reyndar gömul gáta og þá var þetta bara orðalagið á þeim tíma.
Við tökum tillit til þess og notum hana ekki aftur… en hvað finnst þér þá um orðið „hvítingja“) White trash?
Sem blökkumenn nota ansi oft um okkur?
7 ára sonur minn var að svara krossgátu í vor og mér var mjög brugðið þegar ég sá orðið sem vantaði í krossgátuna. Ég sendi ábendingu á Barnagátur og fékk þetta svar í dag. Er ekki í lagi? pic.twitter.com/vYdotLHlKH
— Maryam Holton (@HoltonMaryam) June 29, 2022
DV hafði samband við Pál Þóri Ólafsson, prentsmið hjá Pallo ehf, og ræddi við hann um málið. Líkt og í tölvupóstinum til konunnar segir Páll í samtalinu við blaðamann að um gamla gátu sé að ræða. „Þetta er eldgömul gáta og þetta er krossgátuhöfundur sem gerði krossgátur fyrir þetta blað, eða sem sagt fyrir þessa útgáfu, fyrir einhverjum 20 árum síðan eða eitthvað svoleiðis, jafnvel meira. Þetta er í rauninni endurútgáfa á blaði sem var gefið út fyrir 10 til 15 árum síðan,“ segir hann.
„Það kemur einstaka sinnum fyrir í öllum gátum hjá okkur sem eru gamlar að það kemur fyrir orðalag eða orð sem eru kannski ekki alveg við hæfi í dag sko. En ef þú ferð inn á netið og skoðar bara svertingi, svertingi er náttúrulega bara þekkt orð yfir blökkumann sko, það er bara þannig. Það er bara nýbúið að fella það út,“ segir hann.
Í samtalinu við Pál bendir blaðamaður honum á að það sé ekki bara vísbendingin sem sé slæm heldur einnig sérstaklega lausnin við henni. „Hafiði eitthvað skoðað það, hvað finnst fólki um það að hvítingjar og „white trash“ – hafiði skoðað það eitthvað frekar? Við erum ekki að gera athugasemdir við það sko,“ segir Páll þá. „Við getum ekki leiðrétt tungumálið 100 ár aftur í tímann, það gengur ekki upp. Þú ferð ekki að breyta Íslendingasögunum.“
Páll segist svo vera búinn að biðjast afsökunar á þessu. „Við reynum alltaf að lesa allar gáturnar okkar yfir og sjá hvort það sé eitthvað þarna inni sem er særandi eða ekki kannski við hæfi í dag. En þetta slapp framhjá okkur. Í sjálfu sér hef ég ekki neina afsökun, þetta einfaldlega bara fór í gegn,“ segir hann.
„Svo á móti kemur að krossgátuhöfundurinn sjálfur sem bjó til þessa gátu, ég fer ekki að breyta gátunni hans. Það er eins og ég myndi fara að breyta einhverri skáldsögu frá Halldóri Kiljan Laxness, þó hann skrifi vitlaust þá er þetta bara stíll sem hann gerði.“