Lögmaður föður tíu ára drengs sem tekinn var úr lyfjagjöf á Barnaspítala Hringsins í byrjun mánaðarins og færður föður sínum, gegn vilja barnsins, segir að drengnum líði vel og að þeir feðgar séu glaðir að vera loksins saman.
DV greindi frá því fyrr í vikunni að drengurinn hafi ekki hitt móður sína frá því hann var færður frá spítalanum af lögreglu og fulltrúa sýslumanns þann.
Mikill viðbúnaður var við Barnaspítalann þann 2. júní vegna aðfarargerðar til að uppfylla umgengnisrétt föður.
Sjá einnig: Fær ekki að hitta son sinn sem var tekinn af henni á Barnaspítalanum fyrr en í október
Um var að ræða sjö klukkustunda aðgerð þar sem byrgt var fyrir glugga á spítalanum, umferð á göngum stöðvuð og heyra mátti öskur í drengnum sem mótmælti því að fara til föður síns. Á staðnum kom einnig til háværra orðaskipta milli þeirra sem stóðu að aðfarargerðinni og svo aðstandenda barnsins.
Þá hefur Landspítalinn óskað eftir fundi með sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu vegna aðgerðarinnar.
Samkvæmt nýjum dómi Landsréttar fær drengurinn næst að hitta móður sína í október.
Upphaflega dæmdi héraðsdómur móður fulla forsjá yfir báðum börnum þeirra, 10 ára dreng og 14 ára stúlku. Umgengni drengsins við föður átti að vera takmörkuð og drengurinn mátti ekki að gista hjá honum en engin umgengi átti að vera milli dóttur og föður.
Samkvæmt dómi Landsréttar skal umgengni dóttir og föður hefjast í júlímánuði, þrátt fyrir að dóttirin hafi andmælt því að hitta föður.
Auður Björg Jónsdóttir, lögmaður föður, segir í skriflegu svari til DV að úrlausnir dómstóla vegna ágreinings móður og föður tali sínu máli.
„Umbj. minn ber hagsmuni barna sinna fyrir brjósti sér og vill ekki ræða viðkvæm persónuleg málefni þeirra eða eldri bróður þeirra í fjölmiðlum. Þess má þó geta að drengnum líður mjög vel og þeir feðgar glaðir að fá að verja loks tíma saman. Telur umbj. minn að almenningur hljóti að átta sig á því að frásögn konunnar, og þeirra sem tala hennar máli í fjölmiðlum, er ekki rétt enda væru niðurstöður dómsmála aðila ekki þær sem þær eru ef svo væri. Þá eru líklega fáir sem trúa því að hlutlausir sálfræðingar, sérfræðingar og dómarar sem að málunum hafa komið séu ekki starfi sínu vaxnir eins og að er látið liggja og jafnvel fullyrt. Vildi hann óska þess að konan einbeitti sér frekar að því að bæta samskipti aðila og finna farsæla lausn fyrir börn þeirra heldur en að stuðla daglega að umfjöllun um málefni þeirra á vefmiðlum.“