„Þetta er rosalega falinn vandi og er mikið tabú,“ segir Egill Gylfason sem skrifaði BA ritgerð sína í sálfræði um klámvandann. Í könnun hans kemur fram að tæp 12% háskólanema horfa of mikið á klám og 7% telja sig eiga við vanda að stríða. Fjallað er um könnunina á forsíðu Fréttablaðsins í dag.
„Klámvandinn er fjölbreyttur og fer eftir aðstæðum viðkomandi. En hann truflar alltaf eitthvað annað í lífi viðkomandi, hvort sem það er truflun á líðan eða aðstæðum,“ segir hann.
Getur það verið félagsleg einangrun, skertur áhugi á samböndum, kynferðisleg vandræði svo sem risvandamál, togstreita í samböndum, minni áhugi á ýmsum hlutum, svo sem námi, vinnu og heimilisverkum.
Alls svöruðu 666 nemendur könnuninni, 33,6 prósent karlar og 65,7 prósent konur. Flestir svarendurnir, 64,3 prósent, voru á aldrinum 18 til 25 ára.
Langflestir, 91,3 prósent, hafa séð klám einhvern tímann um ævina, en hafa ber í huga að skilgreining fólks á klámi er ekki alltaf sú sama. 8,7 prósent hafa aldrei séð klám og 21,4 prósent sögðust ekki horfa á það. 10 prósent horfa 5 til 7 sinnum í viku eða oftar á klám.
Kynjamunurinn í klámáhorfi háskólanema er áberandi. 27,8 prósent karla töldu sig eiga erfitt með að stjórna klámnotkun sinni en aðeins 3,8 prósent kvenna.
Það kom hins vegar Agli á óvart hversu margir horfa á klámefni í farsímum sínum. 57,2 prósent horfa mestmegnis á klám í farsíma en aðeins 13,8 prósent í tölvu. Egill segir að hin mikla klámnotkun í farsímum hjálpi ekki til þegar kemur að klámvandanum. „Fólk getur nú horft á klám uppi á Esjunni eða í breska þinginu eins og dæmin sýna,“ segir hann.