Stefán Ingvar Vigfússon, pistlahöfundur og uppistandari í VHS-hópnum, birtir Bakþanka sína aftan á Fréttablaðið í dag og hefur pistillinn vakið mikla athygli. Í honum beinir Stefán spjótum sínum að kanadíska sálfræðingnum Jordan Peterson sem hélt fyrirlestur fyrir fullu húsi í Háskólabíói um síðustu helgi. Viðtal sem Stöð 2 tók við Peterson hefur valdið töluverðri ólgu, sérstaklega ummæli hans um málefni trans fólks.
Stefán segir í pistli sínum:
„Helgina sem leið hélt vinsæll kanadískur YouTube-ari fyrirlestur í Háskólabíói, sá ku vera sálfræðingur að mennt. Hann skrifaði einu sinni bók stílaða að ungum karlmönnum, hvar hann hvatti þá til þess að borða hollan mat og standa beinir í baki. Mörgum þóttu þetta nýstárlegar hugmyndir. Það truflar þá ekkert að umræddur segi konur eingöngu mála sig til þess að tæla samstarfsfólk sitt. Né þótti þeim tiltökumál að hann segi lækna sem framkvæma nauðsynlegar aðgerðir til kynleiðréttingar vera slátrara. Nei, þeim fannst of merkileg sú hugmynd að vingast við fólk sem vill manni vel.“
Stefán sakar Peterson um að hafa veist að tilverurétti kynseginfólks og telur hugmyndir hans vera hættulegar. Hann segir ennfremur:
„Leghafar eiga að eiga algjört og ótvírætt vald yfir eigin líkama. Trans fólk er til, trans börn eru til – til allrar hamingju. Til andskotans með þau sem básúna annað.“
Brynjar Níelsson, fyrrverandi þingmaður og núverandi aðstoðarmaður dómsmálaráðherra, er lítt hrifinn af pistli Stefáns og segir hann hafa gert þau mistök að vera með uppistand þegar hann var í ójafnvægi. Brynjar segir á Facebook:
„Hinn geðþekki uppistandari, Stefán Ingvar Vigfússon, var með uppistand í Bakþönkum Fréttablaðsins í morgun. Hann áttar sig ekki á því, frekar en Kristinn Hrafnsson, að það fer aldrei vel að vera með uppistand þegar menn eru í fullkomnu ójafnvægi. Þá fer allt fyrir ofan garð og neðan.“
Brynjar segist ennfremur greina það gamalkunnuga stef vinstri manna í skrifum Stefáns, að álíta þá sem eru ósammála manni vera hættulega:
„Stefáni finnst, eins og flestum vinstri mönnum, að þeir sem eru ósammála þeim séu hættulegir menn. Þeir eiga því að fara til andskotans. Þetta hljómar kunnuglega í eyrum þeirra sem muna tímanna tvenna.“
Brynjar segir ennfremur:
„Nú um stundir er kanadískur prófessor, Jordan Peterson að nafni, hættulegasti maður sem fyrirfinnst. Afskaplega rökfastur maður sem bendir oftast á það augljósa og þær hættur sem vestrænu lýðræði stafar af pólitísku ofstæki og rétthugsun. Næst hættulegasti maðurinn er miðaldra karl á fésbókinni, sem er aðstoðarmaður ráðherra og engu ræður. Hann fengi ekki Trabant ef Stefán Ingvar fengi einhverju ráðið. Og þyrfti örugglega að sæta geðrannsókn að auki.“