Í leiðara Morgunblaðsins í dag er vikið að hryðjuverki sem framið var í Osló í Noregi um síðustu helgi. Skotárás var þá gerð inni á skemmtistað fyrir hinsegin fólk, létust tveir og 14 særðust. Gleðigöngunni í Osló sem fram átti að fara um síðustu helgi var frestað vegna glæpsins. Morgunblaðið segir:
„Illvirkinn Zaniar Matapour sem drap tvo og særði 21 í Ósló um helgina er kominn í gæsluvarðhald og einangrun og verður vonandi við sambærilegar aðstæður það sem eftir er. Það mun þó litlu breyta um sársaukann sem hann hefur valdið með tilefnislausu ódæðisverki sínu. Yfirvöld í Noregi telja verknaðinn „íslamskt hryðjuverk“ enda hafði Matapour verið í sambandi við kunnan íslamskan öfgamann og frá árinu 2015 verið á radarnum hjá norsku öryggislögreglunni, PST, sem hafði þó ekki gripið til aðgerða gegn honum. Sú málsmeðferð er nú til athugunar en vissulega er erfitt að meta hvenær og þá hvað á að gera við menn sem grunaðir eru um að aðhyllast slík öfgasjónarmið og ofbeldi.“
Það er mat leiðarahöfundar að íslömsk hryðjuverk séu ekki útilokuð á Íslandi og er vísað í viðtal blaðsins við Runólf Þórhallsson, aðstoðaryfirlögregluþjón í greiningardeild ríkislögreglustjóra:
„Í Morgunblaðinu í gær var rætt við Runólf Þórhallsson, aðstoðaryfirlögregluþjón í greiningardeild ríkislögreglustjóra, um hryðjuverkahættu hér á landi og möguleika lögreglunnar til að koma í veg fyrir hryðjuverk. Runólfur sagði að hætta hér á landi væri talin minni en í Noregi og Danmörku, meðal annars vegna þess að hér væru ekki menn sem hefðu farið til að berjast með hryðjuverkasamtökum í fjarlægum löndum og hefðu svo snúið heim aftur. Hættan væri þó fyrir hendi en íslenska lögreglan hefði minni rannsóknarheimildir en til dæmis norska lögreglan. Hann sagði að væru heimildir lögreglunnar hér á landi rýmri væri hægt að meta stöðuna betur og sagðist telja nauðsynlegt að ræða heimildir lögreglunnar í breyttum heimi.“
Hættan af slíkum hryðjuverkum er talin minni hér á landi en í Noregi og Danmörku en þó vera fyrir hendi. Leiðarahöfundur bendir á að ástandið geti breyst hratt þó að fólk telji sig búa í öruggu landi hér nú. Því sé ástæða til að huga að auknum valdheimildum lögreglu:
„Íslendingum finnst þeir búa í öruggu landi og þannig hefur það verið. Það gæti þó verið að breytast hratt og engin trygging er fyrir því að við verðum áfram laus við óværu eins og þá sem frændþjóðir okkar hafa mátt lifa við. Að þessu verða stjórnvöld að huga og hluti af því er að meta hvaða heimildir lögreglan hefur til að fylgjast með mögulegum hryðjuverkamönnum. Slíkar heimildir eru vitaskuld engin trygging fyrir því að hægt verði að stöðva ódæðismennina fyrirfram, en þær auka þó líkurnar á að einhverjir þeirra náist í tíma.“