Fyrirtaka var undir hádegi í dag í máli héraðssaksóknara gegn Hafþóri Helgasyni, fyrrverandi framkvæmdastjóra Tölvuteks. Hafþór er sakaður um meiriháttar brot gegn skattalögum og fyrir peningaþvætti í rekstri Tölvuteks.
Hafþór er sakaður um að hafa ekki staðið skil á virðisaukaskatti fyrir hluta af rekstrarárinu 2019 upp á tæplega 15 milljónir króna. Þá er hann sakaður um að hafa ekki staðið skil á staðgreiðslu og launatengdum gjöldum starfsmanna fyrirtækisins fyrir árin 2018 og 2019, upp á samtals rúmlega 35 milljónir króna.
Þess er krafist að Hafþór verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.
Sem fyrr segir var fyrirtaka í málinu í dag og má vænta þess að aðalmeðferð verði síðar í sumar eða í haust. Dagsetning fyrir aðalmeðferð hefur ekki verið ákveðin.
Tölvutek hætti starfsemi seint í júní 2019 en síðar sama sumar yfirtók Origo rekstur verslunarinnar og hefur hún síðan þá verið rekin undir annarri kennitölu. Það rekstrarfélag Tölvuteks sem Hafþór stýrði hefur verið afskráð.