Að minnsta kosti 18 einstaklingar hafa fundist látnir í rústum verslunarmiðstöðvar í borginni Kremenchuk í Úkraínu sem varð fyrir sprengjuárás í gær. Að minnsta kosti 25 einstaklingar særðust í árásinni en enn er 36 einstaklinga saknað. Hundruðir viðskiptavina voru staddir í verslunarmiðstöðinni þegar árásin átti sér stað.
Úkraínumenn fullyrða að Rússar hafi skotið sprengjuflaug að gerðinni KH-22 á verslunarmiðstöðina en slíkar sprengjur vega um eitt tonn.
Volodymyr Zelensky, Úkraínuforseti, sagði að árásin væri óforskammaðasta hryðjuverkaárás í sögu Evrópu. Þá fullyrti hann að Rússar væru að beina spjótum sínum viljandi að óbreyttum borgurum og árásin á verslunarmiðstöðina hafi verið tímasett þannig að hún hafi átt sér stað á háannatíma þar sem tryggt væri að fjölmargir viðskiptavinir væru þar á ferð.