Arnar Grant og Vítalía Lazareva hafa verið kærð til héraðssaksóknara fyrir tilraun til fjárkúgunar. Þetta kemur fram í frétt Fréttablaðsins. Í fréttinni kemur fram að kærendurnir séu þeir Ari Edwald, Hreggviður Jónsson og Þórður Már Jóhannesson.
Kæran á rætur sínar að rekja til uppákomu í sumarbústaðarferð í Skorradal árið 2020. Þar voru þremenningarnir að skemmta sér ásamt og Þorsteini M. Jónssyni og Arnari. Sá síðastnefndi bauð Vítalíu í heimsókn eftir miðnætti þegar ölvun var orðin talsverð en þá hafði Þorsteinn yfirgefið staðinn.
Ári síðar, 28. október í fyrra, fengu þremenningarnir skilaboð frá Vítalíu þess efnis að hún ætlaði að leita réttar síns vegna meintra brota þremenninganna gegn henni. Daginn eftir birti hún svo færslu á Instagram þar sem hún sakaði þremenninganna ásamt Arnari um að hafa brotið á sér kynferðislega í pottinum. Sú færsla var síðan tekin niður samdægurs.
Í frétt Fréttablaðsins kemur fram að Arnar hafi afgreitt færsluna sem bull en síðar ákveðið að styðja frásögn Vítalíu og breiða hana hún.
Í kæru á hendur þeim Vítalíu og Arnari sem lögmenn Ara, Hreggviðar og Þórðar afhentu á skrifstofu Héraðssaksóknara síðastliðinn föstudag er byggt á því að þau Vítalía og Arnar Grant hafi staðið sameiginlega að atburðarás sem hófst seinnipartinn í nóvember sama ár.
Þá er fullyrt í fréttinni að Vítalía hafi sent skilaboð á eiginkonur Þórðar Más og Hreggviðs sem og son eins þremenninganna. Í símtali við Hreggvið hafi hún tjáð honumað rússneskir lögfræðingar væru að vinna að málinu hennar og að þeir væru staddir á heimili hennar í Mosfellsbæ.
Þá mun hún hafa lagt áherslu á að Arnar Grant yrði látinn í friði og að komið yrði vel fram við hann og ekki mætti reka hann úr golfhópnum Stullunum sem þeir áttu aðild að þremenningarnir, Arnar og fleiri.
Síðar fóru að berast umslög í bréfapósti, bæði til fjölskyldumeðlima mannana og samstarfsmanna þeirra í viðskiptalífinu.
Í umslögunum sem voru stíluð á tiltekna viðtakendur með rauðum tússpenna, voru útprentuð skjáskot af fyrrnefndri færslu Vítalíu ásamt miða með orðunum: „Hver borgaði milljónir fyrir þögnina“ og „hver átti húsið með heita pottinum?“
Meðal þeirra sem fengu slíkar póstsendingar voru kona Þórðar, stjórnarkonur í Festi, framkvæmdarstjóri Krónunnar og stjórnarformaður og framkvæmdarstjóri Mjólkursamsölunnar. Síðar í mánuðinum fékk kona Hreggviðs einnig slíka sendingu.
Þá kemur fram að á meðan skeytasendingunum stóð hafi kærendur leitað til lögmanns sem þekkti til fjölskyldu Vítalíu í þeim erindagjörðum að biðja hann að setja sig í samband við hana í því skyni að komast að því hvað vekti fyrir henni.
Sá lögmaður fundaði þrisvar með Vítalíu og var Arnar viðstaddur tvo fundi sem ráðgjafi. Herma heimildir Fréttablaðsins að lögmaðurinn hafi borið þremenningunum þau skilaboð frá Vítalíu og Arnari að greiða þyrfti alvöru fjárhæð til að allir gengju stoltir frá borði og hefðu hagsmuni af því að þegja. Taldi hann framan af að ger væri krafa upp á fimmtíu milljónir en meðal gagna málsins er einnig skjáskot af skilaboðum til lögmannsins með hugmynd um greiðslu upp á 3 sinnum þá fjárhæð, samtals 150 milljónir „eftir skatta“ eins og það er orðað. Er í kærunni gengið út frá því að skilaboðin séu frá Vítalíu en Fréttablaðið hefur ekki fengið staðfest að svo sé. Í skilaboðunum segir:
„Þá þarf að stilla því upp að þetta er upphæðin eftir skatt svo ekki séu svona brellur eins og þeir voru með síðast. Hvort hægt sé að greiða fyrir ráðgjöf og setja það þannig upp eða eins og sé verið að greiða fyrir hugvit eða slíkt.“
Lesa má ítarlega frétt Fréttablaðsins hér en í henni er meðal annars fullyrt að Arnar og Vítalía hafi orðið margsaga um málsatvik og að þrátt fyrir ítrekaðar hótanír Vítalíu hafi enn ekki verið lögð fram kæra vegna atviksins í heita pottinum.