fbpx
Þriðjudagur 05.nóvember 2024
Fréttir

Fær ekki að hitta son sinn sem tekinn var af henni á Barnaspítalanum fyrr en í október

Erla Hlynsdóttir
Þriðjudaginn 28. júní 2022 20:44

Lögreglubíll við spítalann þegar aðfarargerðin fór fram. Fréttablaðið/Anton Brink

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Móðir tíu ára langveiks drengs sem tekinn var úr lyfjagjöf á Barnaspítala Hringsins í byrjun mánaðarins hefur ekki hitt son sinn síðan. Drengurinn var þá færður föður hans, gegn vilja barnsins, af lögreglu og fulltrúa sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu. Samkvæmt nýjum dómi Landsréttar fær drengurinn næst að hitta móður sína í október.

Mikill viðbúnaður var við Barnaspítalann þann 2. júní vegna aðfarargerðar lögreglu og sýslumanns til að uppfylla umgengnisrétt föður. Málið vakti mikla athygli og var fjallað um það í fjölmiðlum eftir að samtökin Líf án ofbeldis vöktu á því athygli með ákalli til stjórnvalda.

Um var að ræða sjö klukkustunda aðgerð þar sem byrgt var fyrir glugga á spítalanum, umferð á göngum stöðvuð og heyra mátti öskur í drengnum sem mótmælti því að fara til föður síns. Á staðnum kom einnig til háværra orðaskipta milli þeirra sem stóðu að aðfarargerðinni og svo aðstandenda barnsins.

Spítalinn krefst svara frá sýslumanni

Mbl.is greindi frá því á dögunum að Landspítalinn hafi sent sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu bréf þar sem óskað er eftir fundi til að fara yfir áhyggjur stjórnenda af málinu. Samkvæmt heimildum Mbl.is er í bréfinu farið yfir þá röskun sem aðgerðirnar ollu á starfsemi barnaspítalans og meðal annars þurfti að flytja börn milli deilda vegna aðstæðna sem sköpuðust. Telja stjórnendur spítalans brýnt að svona lagað gerist ekki aftur.

Móðir segir í samtali við DV að þetta séu jákvæðar fregnir. „Þetta er rosalega seint í rassinn gripið en það er sannarlega jákvætt fyrir komandi tíma ef þeir ætla að stöðva þetta. Það er óboðlegt fyrir hvern sem er, hvað þá fyrir börn, að lenda í svona aðstæðum,“ segir hún.

Upphaflega dæmdi héraðsdómur móður fulla forsjá yfir báðum börnum þeirra, 10 ára dreng og 14 ára stúlku. Umgengni drengsins við föður átti að vera takmörkuð og drengurinn mátti ekki að gista hjá honum en engin umgengi átti að vera milli dóttur og föður.

Úr dómsorði héraðsdóms.

Landsréttur dæmdi hins vegar sameiginlega forsjá beggja barna og lögheimili drengsins hjá föður en lögheimili dóttur hjá móðir. Foreldrarnir búa í sitt hvoru sveitarfélaginu. Í dómnum var ekki fjallað um umgengni. Hæstiréttur fjallaði svo nýlega um þann hluta Landsréttardóms sem snýr að umgengni og vísaði málinu aftur til Landsréttar þar sem skyldi skera úr um umgengni. Landsréttardómi um aðfarargerðina var áfrýjað til Hæstaréttar en hún var síðan framkvæmd áður en Hæstiréttur náði að fjalla um hann.

Nýr dómur um umgengni

Nú er kominn Landsréttardómur þar sem fjallað er um umgengni.

„Regluleg umgengni barnsins [sonarins, innsk.blm.]. við stefndu, [móður, innsk.blm.], skal vera á fjögurra vikna fresti, í tvær klukustundur í senn, fyrst mánudaginn 3. október og áfram allt til loka nóvember 2022. Í desember skal sama umgengni vera fimmtudaginn 22. desember. umgengnin skal fara fram á höfuðborgarsvæðinu og undir eftirliti og handleiðslu í málefnum barna. Þessi umgengni skal aukin upp í fjórar klukkustundir á tveggja vikna fresti frá og með mánudeginum 9. janúar og allt til loka mars 2023.“

Í fyrri dómi var umgengni dóttur engin við föður sinn og hefur stúlkan mótmælt því að hitta föður sinn, en hún er sem áður segir 14 ára gömul. Hún greindi áður frá kynferðislegri áreitni af hálfu föður og var fært til bókar í Barnahúsi að faðir hefði gerst sekur um óviðeigandi hegðun gagnvart henni. „Þessi umgengi er algjörlega gegn hennar vilja,“ segir móðir. Í dómnum segir:

„Regluleg umgengni [dótturinnar, innsk.blm.] við áfrýjanda, [föður, innsk.blm.], skal vera á fjögurra vikna fresti, í tvær klukkustundir í senn, fyrst fimmtudaginn 14. júlí 2022 og til og með 8. september sama ár. Umgengnin skal fara fram á höfuðborgarsvæðinu og undir handleiðslu sérfræðings í málefnum barna. Eftir það verði sama umgengni á tveggja vikna fresti til og með 20. október 2022. Þar næst skal umgengnin fara fram á heimili áfrýjanda laugardaginn 5. nóvember 2022 frá klukkan 12 til 17 undir handleiðslu fagaðila en síðan án slíkrar handleiðslu á tveggja vikna fresti til og með 17. desember sama ár. Eftir það fari [stúlkan, innsk.blm.] í umgengni til áfrýjanda á tveggja vikna fresti frá föstudegi eftir skóla og til sunnudagskvölds, í fyrsta skipti helgina 6. til 8. janúar 2023.“

Stefnuvottur mætir í miðju símtali

Móðir segist miður sín yfir því að svo langur tími líði þar til hún fær að hitta son sinn og segir ennfremur að lögmaður hennar hafi aldrei séð annan eins dóm á sínum ferli. Hún hefur fengið að tala við soninn í síma þannig að faðir heyrði allt samtalið „gegn hans skilyrðum um hvað ég mætti segja og hvað ekki,“ segir hún og tekur fram að hún viti í raun ekkert hvernig sonur hennar hafi það. „Þetta er ansi sturlað,“ segir hún. Þá er engin umgengni á milli barnanna en þau hafa aldrei áður verið aðskilin. Móðir segir föður ekki hafa samþykkt að þau hittist á hlutlausum stað eins og til dæmis róluvelli þar sem starfsmaður barnaverndar myndi vera með þeim.

Á meðan blaðamaður er að tala við móður nú síðdegis þar sem hún er nýbúin að leggja við heimili sitt kemur stefnuvottur með kröfu þar sem farið er fram á fjárnám hjá henni vegna ógreidds málskostnaðar föður við aðfarargerðina, en blaðamaður heyrir í gegn um símann þegar stefnuvottur kynnir sig.

Móðir hringir síðan til baka og útskýrir málið frekar. „Ég á að borga málskostnað föður, sem ég vissi, en ég hef ekki fengið neina kröfu og ekkert komið inn á heimabankann. Nú hef ég fengið þessa boðun vegna fjárnáms þann 7. júlí klukkan tíu og það er lögfræðingurinn hans sem sendir þetta. Ég hef ekki fengið neinar upplýsingar um hvernig ég ætti að greiða upphæðina. Ég átti að borga 1,2 milljónir en nú er þetta komið upp í tæpar 1700 þúsund krónur. Ég fékk gjafsókn frá ríkinu en var dæmd til að borga hans kostnað,“ segir hún.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Viðbragð Veðurstofunnar virkjað í nótt: Töldu að kvikuhlaup gæti verið að hefjast

Viðbragð Veðurstofunnar virkjað í nótt: Töldu að kvikuhlaup gæti verið að hefjast
Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Gat ekki tjáð sig öðruvísi en með öskrum og svívirðingum

Gat ekki tjáð sig öðruvísi en með öskrum og svívirðingum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Netárás tók endurritun internetsins úr sambandi

Netárás tók endurritun internetsins úr sambandi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þessi töluðu minnst á Alþingi á kjörtímabilinu

Þessi töluðu minnst á Alþingi á kjörtímabilinu
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Flýja til Íslands á meðan forsetakosningarnar standa yfir – „Það verður svo mikill hávaði og svo mikil ringulreið“

Flýja til Íslands á meðan forsetakosningarnar standa yfir – „Það verður svo mikill hávaði og svo mikil ringulreið“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Ný könnun: Viðreisn nartar í hælana á Samfylkingunni – Píratar og VG í klandri

Ný könnun: Viðreisn nartar í hælana á Samfylkingunni – Píratar og VG í klandri