fbpx
Mánudagur 20.janúar 2025
Fréttir

Ólga meðal íbúa í Kópavogi vegna ítrekaðra sprenginga – „Eins og bíll hafi keyrt á húsið“

Máni Snær Þorláksson
Mánudaginn 27. júní 2022 16:16

Myndin er samsett

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fyrir nokkru byrjuðu framkvæmdir á Traðareit eystri en reiturinn liggur norðan við Digranesveg á milli Vallartraðar og Neðstutraðar. Áformað er að byggja þar íbúðir og í byrjun júní var byrjað að sprengja á svæðinu fyrir þær.

Þessar sprengingar hafa valdið miklum höggum á önnur hús í nágrenninu og eru íbúar strax komnir með nóg. Áætlað er að þessi vinna við spreningarnar taki tvo og hálfan mánuð.

„Eins og bíll hafi keyrt á húsið“

Íbúar í nágrenni við framkvæmdirnar segja að höggið frá sprengingunum sé mun sterkara en í stórum jarðskjálftum. „Það kemur bara ofsalegur hristingur, þetta er ekki eins og jarðskjálfti. Jarðskjálfti kemur aðeins mildar inn en þetta er bara eins og einhver hafi keyrt á húsið, það hristist allt,“ segir Sighvatur Jónsson, sem býr nokkrum götum frá framkvæmdunum.

„Maður hefur samanburðinn við skjálftana og þetta er meira, þetta er töluvert meira heldur en hörðustu skjálftarnir sem maður fann áður en það fór að gjósa þarna í Geldingadölum. Þetta er meira högg, eins og ég segi þá er þetta eins og bíll hafi keyrt á húsið eða að einhver hafi lamið í það með sleggju.“

Höggin koma flestum íbúum að óvörum þrátt fyrir að flautur fari í gang bæði fyrir og eftir sprengingarnar. Sighvatur bendir á að þessar flautur heyrist ekki til hans en þó fái hann höggin frá sprengingunum.

„Það fara flautur í gang fyrir og eftir sprengingar en það heyrist ekkert til mín, það heyrist kannski í húsunum þarna í kring. Ég er aðeins frá þessu en ég get varla ímyndað mér hvernig þetta er þarna í næstu húsum, þetta hlýtur að vera bara rosalegt,“ segir hann.

Síðasta sumar stóð Sighvatur í framkvæmdum á veggjum hússins sem hann býr í og var það því í góðu standi áður en sprengingarnar hófust. „Ég er nýbúinn að vera að taka húsið í gegn hjá mér í múrviðgerðum og það var alveg 100% sprungulaust en ég er búinn að sjá eina sprungu sem er komin núna, hún kom í þessum sprengingum,“ segir hann.

„Ég get ekki rakið það til neins annars, svo losnaði einhver loftplata í þvottahúsi hjá mér. Þetta er svo sem ekkert stórmál en þetta sýnir samt hvað hristingurinn er mikill.“

Hefur áhyggjur af því að húsið fari í tætlur

Elín Þórdís Gísladóttir býr töluvert nær framkvæmdunum en Sighvatur, eða í götunni við hliðina á þeim. Hún hefur svipaða sögu og hann að segja af sprengingunum og segir einnig að þær séu sterkari en stærstu jarðskjálftarnir. „Þetta er rosalega óþægilegt. Þetta er svo fjarri því að vera eins og stærstu skjálftarnir, þetta er meira en það,“ segir hún.

„Maður hefur bara áhyggjur af því að eignin manns skemmist. Svo hrekkur maður í kút við þessar sprengingar, í síðustu viku hringdi ég í Vinnueftirlitið því mér leið eins og það hafi komið vörubíll á fleygiferð og endað á horninu á húsinu.“

Elín hefur áhyggjur af því að húsið hennar skemmist vegna sprenginganna en hún hefur einnig staðið í framkvæmdum og unnið að því að gera húsið upp. „Tilfinningin að vera í þessu, maður hefur náttúrulega bara áhyggjur af því að eitthvað skemmist, að eitthvað fari illa,“ segir hún.

„Við erum að eyða fullt af peningum í þetta og það er bara verið að sprengja allt í tætlur í næstu götu. Maður hefur svo miklar áhyggjur af því að húsið sem maður er að endurbyggja sé bara að fara í tætlur í höndunum á manni.“

Þá hefur Elín fengið að heyra að hún hafi þurft að fá matsmann til að taka húsið í gegn fyrir sprengingarnar ef hún ætlar að fá einhverjar bætur fyrir skemmdir vegna þeirra. „Ég er búin að lesa á þessum umræðuhópum á Facebook að maður hefði þurft að fá einhvern matsmann til að skoða húsið og ég veit ekki hvað og hvað, því ef það koma einhverjar skemmdir þá séu þær bara á okkur,“ segir hún.

„Þetta er ekki þægileg staða til að vera í og við vissum ekkert um það, það kom ekki fram í neinu upplýsingabréfi – bara að við gætum hringt og kvartað. Við létum þó mynda lagnirnar síðasta vetur, bara út af öðru, og þær eru í fínu standi. Ég henti í póst um það og sagði að ef þær væru ekki í fínu standi eftir sprengingarnar þá sendi ég þeim reikninginn.“

„Innviðirnir eru bara löngu sprungnir“

Elín gagnrýnir að lokum uppbygginguna á þessu svæði harðlega. „Þetta er bara algjör þvæla. Það er verið að byggja alltof stórt þarna og sprengja allt í tætlur. Þetta er bara mjög óþægilegt, mikil röskun og vesen. Ég er bara fegin að vera ekki með pínulítið barn heima núna,“ segir hún.

„Fyrir utan allt hitt sem maður er fúll yfir, að þetta skuli hafa verið samþykkt, þetta er bara fáránleg framkvæmd. Ef þeir byggja þetta allt, allar þessar blokkir, Hamraborgina og einhvern einn reit í viðbót – ef það er bara eitt barn í hverri íbúð þá er skólinn búinn að þrefalda sig í stærð. Það eru rétt rúmlega 300 börn í þessum grunnskóla, það er verið að byggja í heildina 6 eða 7 hundruð nýjar íbúðir þarna. Þetta er svo mikil þvæla og það er fimm mánaða bið í heimilislækninn því það eru svo margir hjá honum. Innviðirnir eru bara löngu sprungnir.“

Svona mun reiturinn líta út eftir framkvæmdirnar – Skjáskot úr deiliskipulagi Kópavogs

Ekkert um svör hjá framkvæmdaaðilunum

Tilkynningu vegna framkvæmdanna var dreift á húsin í nánasta umhverfi þeirra en hún var einnig birt í hverfishópnum á Facebook. Þar kemur fram að þeir sem telji sig hafa orðið fyrir tjóni af völdum sprenginganna geti haft samband við Borgarvirki. Þá er einnig vísað á Vinnueftirlitið og lögregluna.

Tilkynninguna í heild sinni má sjá hér fyrir neðan:

Áætlað er að hefja vinnu við borun og sprengingar í grunni á Traðarreiti eystri þ.e. milli MK og Kópavogsskóla, í byrjun júní. Áætlað er að þessi vinna taki 2,5 mánuði, það fer þó eftir eðli bergsins hversu vel gengur. Reikna má með að sprengt verði nokkrum sinnum á dag.

Framkvæmd sprenginga mun verða í höndum Borgarvirkis ehf.

Öll sprengiskotin verða byrgð með sprengimottum til að koma í veg fyrir grjótkast. Titringsmælar verað staðsettir á og við nærliggjandi hús til að geta fylgst vel með öllum titringi sem af sprengingunum verða og til að halda titringi innan við mörk reglugerðir.

Til viðvörunar um að sprenging sé væntanleg koma þrjú stutt hljóðmerki og svo líður ca 1 mínúta þar til við hleypum af skotinu, getur orðið lengra ef að fólk er nærri þeim stað sem verið er að sprengja á. Svo þegar sprengingu er lokið kemur eitt langt hljóðmerki.

Þeir sem telja sig hafa orðið fyrir tjóni af völdum sprenginganna geta haft samband við Borgarvirki ehf verktaka.

Við vonumst til að þið verðið fyrir sem allra minnstum óþægindum af völdum sprenginganna. Ef þið hafið einhverjar athugasemdir eða spurningar er velkomið að hafa samband við okkur í tölvupósti : magnus@borgarvirki.is ; petur@borgarvirki.is

Ef þið hafið einhverjar athugasemdir vegna þessarar vinnu getið þið haft samband við :

Vinnueftirlit Ríkisins s. 550-4600 Lögreglan s. 444-1000

DV hafði samband við Borgarvirki vegna málsins. Talsmaður þeirra vildi ekki ræða við blaðamann og vísaði á aðalverktakann sem sér um framkvæmdirnar, Jáverk. Þar var vísað á verkefnisstjóra framkvæmdanna, Heimi Örn Bjarkason, en hann vísaði á framkvæmdastjórann, Gylfa Gíslason. Sá svaraði ekki símtölum DV vegna málsins.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Rúmlega 8 þúsund hafa skrifað undir lista gegn sjókvíaeldi í Seyðisfirði

Rúmlega 8 þúsund hafa skrifað undir lista gegn sjókvíaeldi í Seyðisfirði
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Jón Þór svarar ákæru um manndrápstilraun og fleiri brot

Jón Þór svarar ákæru um manndrápstilraun og fleiri brot
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Lögreglan uggandi yfir óhugnanlegum tálbeituaðgerðum hóps íslenskra ungmenna – Ganga hrottalega í skrokk á meintum barnaníðingum

Lögreglan uggandi yfir óhugnanlegum tálbeituaðgerðum hóps íslenskra ungmenna – Ganga hrottalega í skrokk á meintum barnaníðingum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Öfgar heyra sögunni til – Erfiðleikar, gleði, sigrar og stundum sorg

Öfgar heyra sögunni til – Erfiðleikar, gleði, sigrar og stundum sorg
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Úkraínsku hermennirnir voru í þjálfun í Frakklandi – Skyndilega hurfu þeir

Úkraínsku hermennirnir voru í þjálfun í Frakklandi – Skyndilega hurfu þeir
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Ofsótti lesbískt par linnulítið í hálft ár – Brjálaðist vegna beiðni um að þrífa upp hundaskít

Ofsótti lesbískt par linnulítið í hálft ár – Brjálaðist vegna beiðni um að þrífa upp hundaskít