Viðtal sem Snorri Másson tók við sálfræðinginn Jordan Peterson og birt var á Stöð 2 og Vísi í gær hefur vakið töluverða ólgu. Peterson hélt fyrirlestur í Háskólabíói um helgina fyrir fullu húsi en í viðtalinu við Snorra sagðist hann ekki vera eins umdeildur og margir teldu. „Af samfélagsmiðlum að dæma eru allir á móti mér, en það er ekki satt,“ sagði Peterson og vildi meira að harðvítugri gagnrýni á sig væri aðallega haldið uppi af fámennum öfgahópi til vinstri.
Tiltekinn hluti af viðtalinu hefur valdið nokkurri ólgu hér á landi, að minnsta kosti á samfélagsmiðlum, en það er ádeila Petersons á kynleiðréttingaraðgerðir. Peterson er mjög andsnúinn kynleiðréttingaraðgerðum á börnum undir 18 ára aldri. Hann segir þetta ekki vera spurningu um umburðarlyndi. Hann segist hafa nýlega birt harðorða grein um málið í Telegraph. „Ég var í grunninn að kalla eftir fangelsun slátrandi skurðlækna sem eru að framkvæma svokallaðar kynleiðréttingaraðgerðir á fólki undir lögaldri. Ég kallaði samtök bandarískra sálfræðinga (APA) pakk af kjarklausum heiglum og lygurum,“ sagði Peterson um þetta við Snorra.
Samkvæmt heimildum Vísis er þær kynleiðréttingaraðgerðir á fólki undir lögaldri, sem Peterson vísar til, mjög sjaldgæfar. Engar slíkar aðgerðir á fólki undir 18 ára hafa verið framkvæmdar á Íslandi en stundum eru notaðar kynhormónabætandi meðferðir til styðja við trans ungmenni. Fela þær í sér afturkræf áhrif.
Rithöfundurinn og tónlistarmaðurinn Eyvindur Karlsson segir þetta um viðtalið við Jordan Petersson:
„Jæja, getum við nú hætt að umbera það að fólki finnist rosa edgy og kúl að fíla þennan bjána? Bæti við að fólki sem finnst í lagi að gera svona lítið úr tilverurétti transfólks má endilega fjarlægja mig af vinalistanum sínum. Við getum verið ósammála um flest, en ekki það hverjir eiga skilið að vera til.“
Felix Bergsson leikari og tónlistarmaður er ekki að skafa utan að því og skrifar undir færslu Eyvindar:
„Ógeðslegur maður“