Söngvarinn Aaron Ísak, sem sakfelldur var fyrir kynferðisbrot gegn 12 ára drengjum í marsmánuði síðastliðnum, hefur stefnt DV fyrir fréttaflutning af málinu.
Stefnunni er beint gegn Ágústi Borgþóri Sverrissyni blaðamanni sem skrifaði fréttirnar af málum Aarons, og Torgi ehf, útgefanda DV.
Í stefnunni, sem rituð er af Ómari Erni Bjarnþórssyni hæstaréttarlögmanni, er DV sakað um ærumeiðingar og friðarbrot. Er á það bent að lokað þinghald hafi verið í málinu og virðist það túlkun Aarons og lögmanns hans, Ómars, að fréttaflutningur af því hafi þar með verið óheimill. Dómar í málum í lokuðu þinghaldi eru þó iðulega birtir og gerðir að fréttaefni auk þess sem fjölmiðlar fá afhentar ákærur í slíkum málum ef um þær er beðið eftir lögformlegum leiðum.
Einnig er krafist ómerkingar á ýmsum málsgreinum í frétt DV um dóminn yfir Aaroni á þeim forsendum að Aaron hafi ekki verið sakfelldur fyrir þau brot sem þar eru tilgreind. Í fréttum DV af málinu var jöfnum höndum sagt frá ásökunum vitna á hendur söngvaranum, ákæruatriðum og sakfellingu.
Einnig er stefnt vegna þess að DV hafi greint frá viðkvæmum heilsufarsupplýsingum um Aaron. DV birti slíkar upplýsingar eins og þær komu fyrir í dómnum enda eru þær til þess fallnar að varpa að einhverju leyti ljósi á framferði Aarons Ísaks sem hann var sakfelldur fyrir.
Mál Aaron Ísaks gegn DV verður þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur þann 30. júní næstkomandi. Aaron Ísak gerir kröfu um að þinghald í málinu gegn DV verði lokað.