Fjallkonan í ár var Sylwia Zajkowska sem flutti til landsins frá Póllandi en hún flutti ljóð í tilefni þjóðhátíðardagsins 17. júní, samið af Brynju Hjálmsdóttur.
En sú staðreynd að fjallkonan væri pólsk í ár og flytti ávarp sitt með áberandi pólskum hreim virðist hafa farið fyrir brjóstið á sumum, sem eru þeirrar skoðunar að fjallkonan eigi að tala á lýtalausri íslensku.
„Ég skil það svo sem vel í þessu tilviki að sumum hafi gengið misjafnlega að skilja fjallkonuna því að auðvitað var sterkur erlendur hreimur í máli hennar,“ segir Eiríkur Rögnvaldsson prófessor emerítus við íslenskudeild Háskóla Íslands. Hann var gestur þáttarins Sprengisands á Bylgjunni í morgun.
„Við erum svo vön því að búa í eintyngdu samfélagi. Við erum ekkert vön því að heyra til fólks sem ekki á íslensku að móðurmáli.“
Þetta telur Eiríkur eina helstu ástæðu þess hve Íslendingar geta verið óþolinmóðir gagnvart fólki af erlendum uppruna sem reynir að tala íslensku.
Óttast að fólk læri ekki íslensku og einangrist
Hann bendir á að hér búi fjöldi fólks af erlendum uppruna og að þeim muni fjölga í framtíðinni.
„Við þurfum bara að gera það upp við okkur; ætlum við að auðvelda þessu fólki að ná valdi á íslensku og sýna því þá þolinmæði á meðan það er að læra málið eða ætlum við að vera ósveigjanleg í kröfum um einhverja fullkomna íslensku, fullkominn framburð og fullkomnar beygingar og svo framvegis?“ segir Eiríkur.
Fari Íslendingar seinni leiðina telur hann ljóst að hér yrðu til stórir hópar sem ná aldrei valdi á íslensku.
„Og þeir einangrast bara í samfélaginu. Og það er náttúrulega stórhættulegt bæði fyrir íslenskuna og náttúrulega fólkið sjálft og bara lýðræðið í landinu,“ segir Eiríkur.
Hann bendir á að það að taka á móti fólki inn í samfélagið feli í sér að taka á móti því á öllum sviðum þess. Líka þegar kemur að vali á fjallkonunni.