Hæstiréttur Bandaríkjanna sneri í dag við fordæmi sínu sem tryggði bandarískum konum rétt til þungunarrofs. Löggjöfin hefur verið í gildi í næstum 50 ár. Nú er leiðin greið fyrir íhaldsamar fylkisstjórnir að banna þungunarrof í flestum tilfellum, sem sum munu eflaust gera.
Þetta er ein áhrifaríkasta niðurstaða hæstaréttarins síðustu áratuga. Talið er að stjórnir minnst 25 fylkja hafi í huga að setja ný lög sem myndu gera það að verkum að aðgengi kvenna að þungunarofi skerðist mikið. Sums staðar í Bandaríkjunum mun þungunarrof líklega vera bannað í öllum tilfellum, meira að segja þegar um nauðgun eða sifjaspell ræðir.
Flest þessara fylkja eru í suðurhluta landsins. Texas, Louisiana og Mississippi eru þrjú af þrettán ríkjum sem eru með svokölluð „trigger“ bönn sem voru undirbúin fyrir og munu taka gildi á næstu dögum eða vikum.
Þrátt fyrir það að þungunarof sé mjög umdeilt málefni í Bandaríkjunum sýnir könnun sem Gallup tók fyrr í mánuðinum að 55% Bandaríkjamanna styðji rétt kvenna til þungunarrofs.
Efni meirihlutaálitsins var lekið í fjölmiðla í vor þannig þessar fréttir koma mörgum eflaust ekki á óvart.