Tanja Ísfjörð Magnúsdóttir, stjórnarkona í Öfgum, gerir bága stöðu þolenda í réttarkerfinu að umtalsefni í nýrri grein á Vísir.is sem ber heitið „Kominn tími á breytingar í réttarkerfinu?“
Þar vísar hún í sameiginlega skuggaskýrslu sem Kvenréttindafélag Íslands, Mannréttindaskrifstofa Íslands, Öfgar, UN Women á Íslandi og Öryrkjabandalag Íslands hafa skilað inn til nefndar sem starfar á grundvelli samnings Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gagnvart konum (Kvennasáttmálans). Nefndin undirbýr nú fund þar sem fulltrúar íslenska ríkisins munu sitja fyrir svörum um framkvæmd Kvennasáttmálans.
105 dagar frá kæru en engin skýrslutaka
Samkvæmt skýrslunni virðist kerfið ekki í stakk búið til að takast á við kynbundið ofbeldi og þau mál sem gerast í skjóli einkalífsins og skili því oft ósanngjörnum niðurstöðum sem endurspegla raunveruleika kvenna.
Tanja bendir á fjölmörg atriði sem valda sérstökum áhyggjum, svo sem lágt sakfellingarhlutfall, niðurfellingu mála og tafir á rannsóknartíma. Hún tekur dæmi.
„Maður sem var kærður fyrir tilraun til nauðgunar í október 2021 hefur ekki ennþá verið birt kæran. 105 dagar eru liðnir frá því hann var kærður og enn er ekki búið að taka skýrslu af hinum kærða,“ segir hún.
Þá segir hún að þurfi meira fjármagn og aukna þekkingu þeirra sem starfa í málaflokknum. „Það þarf einnig að leggja þyngra vægi á orð þolenda og sálfræðinga. Eitt nei kærðs manns vegur hærra en sannanir og orð kæranda í kerfinu eins og það virkar í dag,“ segir hún.
Sláandi tölfræði
Þá bendir hún líka sérstaklega á hversu algengt sé að landsréttur snúi við dómum í kynferðisbrotamálum, oftar en í öðrum málum.
„Fólk veigrar sér að kæra kynferðisofbeldi því þau trúa ekki að réttlætið muni sigra. Þetta sést svart á hvítu þegar teknar eru saman tölur frá árinu 2020 á höfuðborgarsvæðinu, frá Stígamótum (299 nýjar heimsóknir), Bjarkarhlíð (827 nýjar heimsóknir) og Neyðarmóttöku Landspítalans (130 nýjar heimsóknir) og borið saman við tölur tilkynntar til lögreglunnar á Höfuðborgarsvæðinu (tæp 100 mál) og þær sem ríkissaksóknari greindi frá (325 meðhöndluð mál),“ segir Tanja.