fbpx
Sunnudagur 19.janúar 2025
Fréttir

Omar varð fyrir manndrápstilraun á Seltjarnarnesi á 17. júní – „Ég get ekki sofið og þori ekki út úr húsi“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Föstudaginn 24. júní 2022 11:10

Omar Alrahman Mynd: Ernir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Omar Alrahman er 41 árs gamall maður frá Írak sem býr í Hafnarfirði með eiginkonu, barni og föður sínum. Er Omar kom til Íslands í nóvember árið 2020 taldi hann sig hafa fundið friðsælasta stað á jarðríki og hlakkaði til að búa fjölskyldu sinni gott heimili og eiga í vændum góða framtíð. Þetta hefur að miklu leyti gengið eftir, allt þar til Omar varð fyrir óskiljanlegri og lífshættulegri líkamsárá byggingarsvæði á Seltjarnarnesi á 17. júní.

Árásin átti sér stað um tíuleytið um morguninn. Greint var frá málinu í fjölmiðlum en tveir sjúkrabílar og þrír lögreglubílar komu á vettvang. Í læknisvottorði sem Omar hefur undir höndum kemur fram að hann hlaut þrjú brot á höfuðkúpu og sár á höfuðið, rifbeinsbrot og löskun á hægri hendi. Auk þess er hann sagður vera í áfalli og líða mjög illa andlega eftir árásina. Lá hann á heila- og taugaskurðdeild Landspítalans í tvo sólarhringa eftir atvikið. Hann er núna rúmfastur á heimili sínu í Hafnarfirði.

DV tók hús á Omari og fjölskyldu hans en í viðtali blaðamanns við hann kom fljótt í ljós að hann man ekkert eftir árásinni. Það síðasta sem hann man er að hann varð var fyrir hreyfingu fyrir aftan sig er hann kraup niður við bílhjól en hann var að huga að dekki á bíl sínum sem var í ólagi. Næst vaknar hann á sjúkrahúsi umkringdur heilbrigðisstarfsfólki og lögreglumönnum.

„Vinur minn var að hjálpa mér eitthvað með dekkið. Ég beygði mig niður. Ég sá að einhver gekk aftur fyrir mig. Svo man ég ekki neitt þar til ég vakna allt í einu á spítalanum. Ég spurði: Hvað gerðist eiginilega?“

Árásin á Omar er rannsökuð sem tilraun til manndráps. Maðurinn réðst einnig á annan vinnufélaga sinn, sem og á eiganda verktakafyrirtækisins sem þarna var að störfum, en þá menn sakaði lítið þar sem árásirnar á þá voru augliti til auglitis og þeir höfðu tök á að verja hendur sínar, ólíkt Omar, sem sá ekkert og hafði ekki hugmynd um hvað hafði komið fyrir sig.

Árásarmaðurinn barði hann margsinnis með hamri í höfuð og stakk hann oft með oddhvössu verkfæri í búkinn með þeim afleiðingum að tvö rifbein brotnuðu. Omar þjáist núna af stöðugum verkjum og svefnleysi og þarf bæði sterk svefnlyf og verkjalyf. „Ég get ekki sofið og þori ekki út úr húsi,“ segir hann.

Hjónin Omar og Azdihar. Mynd: Ernir

Kom til Íslands í leit að friði og öryggi

Þrátt fyrir erfiðleikana sem nú hafa dunið yfir var notalegt fyrir blaðamann og ljósmyndara DV að heimsækja fjölskylduna. Ró og góður og vinsamlegur andi ríkti í látlausri en snyrtilegri íbúðinni. Eiginkona Omars heitir Azdihar og er 31 árs. Hún bar arabískt te og smákökur á borð fyrir gesti. Faðir Omars var á tali við annan gest inni í eldhúsi en í stofunni, þar sem viðtalið fór fram, var einnig dóttir þeirra hjóna, sem er þriggja og hálfs árs. Barnið getur ekki talað en hún er fyrirburi og gefur glímt við mikil veikindi frá fæðingu. Að sögn hjónanna hafa þau fengið betri þjónustu fyrir dóttur sína hér á landi en þau gat órað fyrir og eru afar þakklát fyrir sjúkraþjálfun, dásamlega dvöl á leikskóla, bólusetningar og ýmsa aðra þjónustu sem hefur komið sér vel fyrir barnið.

„Ég barðist gegn Daesh í 18 ár,“ segir Omar en hann starfaði fyrir herinn í Írak og tókst á við skelfilega og ófyrirleitna hryðjuverkamenn. Hann kom til Íslands til þess að vera laus við allt slíkt, lifa í friði, en hið hrottafulla og óvænta ofbeldi sem hann varð fyrir á 17. júní á Seltjarnarnesi segist hann upplifa eins og hryðjuverk. „Þetta var eins og terroristarnir,“ segir hann og minnist með hryllingi vígamannanna sem oft eru kenndir við svokallað Ríki Íslams.

Omar liggur í stofusófanum undir ábreiðu og er með sárabindi um höfuðið. Azdihar þarf að hjálpa honum á salerni þar sem hann hefur misst jafnvægisskyn. Hann er bjargarlaus. Eigandi verktakafyrirtækisisns hafði boðið honum að prófa að vinna á svæðinu í nokkra daga og sjá til hvort byggingarvinna hentaði honum. Allt leit vel út þegar þessi óvænta, hrottafulla og tilefnislausa árás átti sér stað.

Omar á sjúkrahúsinu, nývaknaður eftir árásina. Mynd: Aðsend

Árásarmaðurinn bauð honum í mat skömmu fyrir ódæðið

„Hvað gerðist eiginlega og hvers vegna gerðist þetta?“ spyr Omar. Þetta eru spurningar sem kvelja huga hans. Maðurinn sem réðst á hann er frá Afganistan en mennirnir þekkjast eiginlega ekki neitt og að sögn Omars hafði ekki hinn minnsti ágreiningur verið á milli þeirra.

„Mér hefur verið sagt að fólk frá Afganistan geti verið mjög árásargjarnt. Ég veit ekkert um það en hvað sem því líður þá óraði mig aldrei fyrir því að ég gæti lent í þessu á Íslandi. Á þessum friðsæla stað.“

Omar greinir frá því að árásarmaðurinn hafi boðið honum að borða kvöldmat með sér skömmu fyrir árásina og þeir hafi þar átt saman friðsæla máltíð. „Við borðuðum saman og það var bara rólegt og fínt. En annars þekktumst við ekkert. Það var ekkert á milli okkar.“ Þegar blaðamaður spyr Omar hvers vegna hann telji að maðurinn hafi ráðist á sig segir hann: „Það er það sem ég vil fá að vita. Ég veit það ekki.“ Hann hefur djúpstæða þörf fyrir að vita hvað gerðist og hvers vegna í ósköpunum það gerðist. Hann segir manninn ekki hafa sýnt nein merki um að hann sé andlega vanheill og ekkert bendi til þess að hann sé það.

Frásagnir vitna af atburðunum og áverkarnir á líkama hans segja auðvitað sína sögu en sú frásögn er samt mjög brotakennd. Omar vonar að hægt sé að komast yfir einhver gögn úr eftirlitsmyndavélum á svæðinu og lögreglan kanni þau. Ennfremur fýsir hann að vita hvort árásarmaðurinn upplýsi lögreglu um hvað honum gekk eiginlega til með þessu. Lögregla ræddi aðeins lítillega við Omar á sjúkrahúsinu en hann hefur ekki haft heilsu til að fara niður á lögreglustöð og gefa ítarlegri skýrslu.

„Ég vona innilega að lögregla rannsaki þetta mál ítarlega og upplýsi fyrir mér hvers vegna þetta gerðist. Einn maður ræðst á þrjá menn og reynir að drepa einn þeirra. Þetta er stórmál. Í Írak gæti svona afbrot kostað jafnvel lífstíðarfangelsi.“

Höfuðáverkar á Omar eftir hamarinn. Mynd: Aðsend

Óttast um sjálfan sig og fjölskyldu sína

Hér á Íslandi hafa Omar og fjölskylda hans búið við frið og öryggi. Nákvæmlega það sem þau sóttust eftir. Hin óskiljanlega árás hefur hins vegar grafið mjög undan öryggistilfinningunni sem ræktast hafði með Omar þennan tíma sem hann hefur dvalist á hér. Andleg eftirköst svo óvæntrar og hrottafullrar árásar eru þau að núna finnst honum hvað sem er geta gerst hvenær sem er og hann sé hvergi öruggur. Hann segist varla þora út úr húsi og hann er hræddur um fjölskyldu sína ef þau fara út.

„Ég þori ekki að fara út og ég er hræddur við að vita af konu minni, barni mínu eða föður mínum úti. Núna finnst mér eins og einhver geti ráðist á þau hvenær sem er. Fyrst þetta gat gerst þá getur allt gerst. En ég hélt að svona gæti ekki komið fyrir mig á Íslandi.“

Fjárhagsstaðan er erfið og núna lengist sá tími sem Omar verður óvinnufær. Eiginkonan Azdihar er ekki með atvinnuleyfi innifalið í sínu dvalarleyfi en Omar má vinna þegar hann hefur heilsu til. Dvalarleyfi hans gildir til eins árs í senn og það þarf að endurnýja næst fyrir 16. ágúst. Það er eitt kvíðaefni sem vofir yfir Omar, ofan í þær áhyggjur og þá líkamlegu og andlegu vanlíðan sem hefur fylgt ofbeldinu.

Omar þráir að snúa aftur til þess eðlilega lífs sem hann var farinn að rækta með fjölskyldu sinni hér áður en ósköpin dundu yfir þann 17. júní. Til að það geti orðið þarf þrennt að gerast, í fyrsti lagi þarf han að fá dvalarleyfi sitt endurnýjað. Í öðru lagi þarf hann að ná heilsu og í þriðja lagi þarf rannsókn lögreglu á atburðinum að varpa einhverju ljósi á hvað eiginlega gerðist þarna á Nesinu og hver var rótin að þeirri ótrúlegri illsku sem Omar var þar beittur.

„Mig langar bara til að lifa í friði hér á Íslandi með fjölskyldu og vinna fyrir okkur,“ segir hann en hann veit ekki hvenær hann nær heilsu á ný. Góð heilsa er víðsfjarri eins og staðan er núna og Omar er eiginlega bjargarlaus.

Blaðamaður spurði Omar spurninga sinna á ensku, sem hann hefur ekki góð tök á. Hann svaraði á írösku en góð vinkona fjölskyldunnar túlkaði fyrir blaðamann og Omar. Blaðamaður og ljósmyndari kvöddu eftir góða stund með vingjarnlegu fólki, með þá von í brjósti að Omar megi ná heilsu á ný og þessari fjölskyldu megi farnast sem best á Íslandi.

Lokað er fyrir athugasemdir
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Svona miklum peningum eyddi Reykjavíkurborg í ferðir á einu og hálfu ári

Svona miklum peningum eyddi Reykjavíkurborg í ferðir á einu og hálfu ári
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Perri í Grasagarðinum – „Dóttir mín var mjög hrædd“

Perri í Grasagarðinum – „Dóttir mín var mjög hrædd“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Arkitekt telur hægt að bjarga Álfabakkamálinu – Erfiðara að endurvekja traust á skipulagi borgarinnar

Arkitekt telur hægt að bjarga Álfabakkamálinu – Erfiðara að endurvekja traust á skipulagi borgarinnar
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Kristján fengið nóg: „Ónæðið held­ur áfram og byrjaði nú síðast klukk­an 7 í morg­un“

Kristján fengið nóg: „Ónæðið held­ur áfram og byrjaði nú síðast klukk­an 7 í morg­un“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Álftnesingur réðst á lögreglumann í Valsheimilinu

Álftnesingur réðst á lögreglumann í Valsheimilinu
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Bryggjan brugghús komið á sölu

Bryggjan brugghús komið á sölu