En ljóst er að ef þetta ástand verður viðvarandi og jafnvel verra getur það gert Evrópubúum erfitt fyrir næsta vetur.
Kristian Rune Poulsen, sérfræðingur í orkumálum hjá Green Power Denmark, sagði í samtali við Ekstra Bladet að hitastigið næsta vetur muni skipta miklu máli. Ef hann verði kaldur verði staðan líklega mjög alvarleg. Þá muni fyrirtæki víða um álfuna neyðast til að hætta framleiðslu.
Þýskaland og Ítalía eru sérstaklega háð gasi, bæði heimili og fyrirtæki, og til að tryggja að nóg gas verði til að kynda heimili gæti þurft að stöðva framleiðslu margra fyrirtækja ef veturinn verður kaldur.
Ef fyrirtæki neyðast til að hætta framleiðslu sinni telja margir hagfræðingar að það muni valda efnahagskreppu í álfunni. Lítið vöruframboð myndi ýta undir verðbólgu sem er nú þegar mjög há og verð á gasi mun vera mjög hátt áfram.
Þau fyrirtæki, sem geta, muni væntanlega skipta yfir í olíu sem orkugjafa. Það mun þá væntanlega auka eftirspurn eftir olíu og verðið á henni hækka enn frekar.
Poulsen sagði að þótt Rússar skrúfi algjörlega fyrir gasstreymið muni það ekki verða til þess að Evrópubúar sitji og skjálfi í húsum sínum næsta vetur því aðrir orkugjafar muni sjá þeim fyrir hita.