Fram kom að heilbrigðisyfirvöld reikna með að faraldurinn muni herja á Dani næsta vetur en engar áætlanir eru uppi um að grípa til sérstakra sóttvarnaaðgerða eða umfangsmikillar samfélagslokunar.
2,5 milljónum landsmanna verður boðið upp á örvunarskammt númer tvö í haust til auka vörnina gegn alvarlegum veikindum af völdum COVID-19. Frá og með 15. september verður íbúum á dvalarheimilum aldraðra og fólki í sérstaklega viðkvæmum hópum boðið upp á örvunarskammt og frá 1. október stendur öllum 50 ára og eldri slíkur skammtur til boða. Bóluefnin frá Pfizer og Moderna verða í boði.
Faraldurinn hefur sótt í sig veðrið síðustu vikur í Danmörku en er þó ekki mikill að umfangi eins og staðan er í dag. Það er BA.5 afbrigðið, sem er undirafbrigði Ómíkron, sem veldur þessu. Søren Brostrøm, landlæknir, sagði að segja megi að nú sé „lítill sumarfaraldur“.
Landlæknisembættið á von á stærri faraldri í vetur og hefur undirbúið sig undir hann síðustu vikur. Einn liður í þeim undirbúningi er að bólusetningar hefjast á nýjan leik í september. Bólusetningum verður flýtt ef merki eru um að vetrarbylgjan verði fyrr á ferðinni en reiknað er með núna.
Aðalmarkmiðið með aðgerðum heilbrigðisyfirvalda núna er að koma í veg fyrir alvarleg veikindi, sjúkrahúsinnlagnir og dauða, ekki að koma í veg fyrir smit.