„Karlmaður á sjötugsaldri, sem var handtekinn vegna skotárásar í Hafnarfirði í gær, var í morgun í Héraðsdómi Reykjaness úrskurðaður til að sæta vistun á viðeigandi stofnun,“ segir í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.
Mikið umsátur var um stórt fjölbýlishús í Miðvangi í Hafnarfirði í gærmorgun vegna manns sem hafði skotið frá íbúð sinni á tvo bíla fyrir utan húsið. Annar bíllinn var mannlaus en í hinum var karlmaður með barn. Engan sakaði í árásinni.
Eftir nokkurra klukkustunda umsátur sérsveitar lögreglunnar kom maðurinn út úr húsinu og gaf sig fram við lögreglu. Veitti hann ekki mótþróa við handtöku.
Málið er rannsakað sem tilraun til manndráps.