Skiptalok hafa orðið hjá þrotabúi Tomahawk-framkvæmda ehf. en búið var tekið til gjaldþrotaskipta þann 9. mars síðastliðinn. Samkvæmt tilkynningu í Lögbirtingablaðinu í dag nema lýstar kröfur tæplega 1,3 milljörðum króna. Eigandi og forsvarsmaður Tomahawk-framkvæmda var Magnús Garðarsson.
Engar eignir fundust í búinu.
Tomahawk-framkvæmdir var dótturfélag Tomahawk Development ehf. en það félag var um tíma aðaleigandi United Silicon sem rak kísilver í Helguvík. United Silicon var lýst gjaldþrota árið 2018 og var það stórt gjaldþrot. Allt voru þetta félög sem Magnús Garðarsson rak.
Magnús hefur verið kærður til lögreglu fyrir meint fjársvik í tengslum við United Silicon. Samkvæmt heimildum DV er hann grunaður um stórfellt misferli í tengslum við rekstur Tomahawk-framkvæmda. Rannsókn lögreglu á fjárreiðum Magnúsar og félaga í eigu hans er í gangi og mun vera margþætt og umfangsmikil.