Að sögn The Guardian sagði hann að hungur, mikill fjöldi förufólks og röskun á jafnvægi í mörgum ríkjum geti orðið afleiðingin ef ekki tekst að hindra að matvælaskortur verði á heimsvísu.
Flestir hafa eflaust tekið eftir því að matvæli og margt fleira hefur hækkað mikið í verði að undanförnu. Þetta á sér stað á heimsvísu. Ástæðuna má að vissu leyti rekja til heimsfaraldurs kórónuveirunnar en innrás Rússa í Úkraínu er þó aðallega um að kenna.
Ástæðan er að Rússar og Úkraínumenn standa fyrir um 30% af allri kornrækt heimsins og að Rússar hafa komið í veg fyrir að Úkraínumenn geti flutt korn úr landi.
Beasley flutti ávarp í Eþíópíu á fimmtudaginn um þetta. Þar sagði hann að eftir efnahagskreppuna 2007-2009 hafi óeirðir brotist út í 48 ríkjum vegna hækkunar á matvælaverði og hærri verðbólgu. Hann sagði að staða efnahagsmála í dag sé mun verri en hún var fyrir 15 árum. Nú þegar hafi komið til mótmæla og óeirða á Sri Lanka, Túnis, Pakistan, Perú og fleiri ríkjum.
Beasley sagði að þau lönd sem eru háð hveiti og korni frá Rússlandi og Úkraínu séu í sérstakri hættu hvað varðar óstöðugleika. „Þetta eru mjög, mjög erfiðir tímar. Við stöndum frammi fyrir helvíti á jörðu ef við gerum ekki eitthvað strax. Það besta sem við getum gert núna er að ljúka þessu helvítis stríði í Rússlandi og Úkraínu og opna hafnirnar,“ sagði hann.