Þann 16. mars síðastliðinn barst embætti Lögreglustjórans á Suðurnesjum tölvupóstur frá manni að nafni Mohamad Kourani þess efnis að í húsnæði embættisins væri sprengiefni og rýma þyrfti húsnæðið. Reyndist vera um gabb að ræða.
Dómur var kveðinn upp yfir Mohamad þessum, sem fékk alþjóðlega vernd hér á landi árið 2018, þann 16. júní síðastliðinn, en auk gabbsins var hann ákærður fyrir mikinn fjölda annarra brota og sakfelldur fyrir þau flest. Dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjaness.
Mohamad var meðal annars sakaður um líkamsárás á skrifstofu í Reykjavík í maí árið 2020 en hann sló mann hnefahöggum á brjóstkassa og sló til hans með styttu. Hlaut maðurinn mar á brjóstkassa og yfirborðsáverka á úlnlið og heni.
Hann var sakaður um húsbrot í júní 2020 fyrir að hafa neitað að yfirgefa starfstöð lögmanns og verið með ógnandi framkomu.
Þá var hann sakaður um að hafa sett sig í samband við lögmann sem hafði fengið nálgunarbann á hann.
Hann var sakaður um að hafa valdið eignaspjöllum í Drápuhlíð í Reykjavík með því að sparka í hurð á húsnæði þar svo rúða brotnaði.
Ennfremur var Mohamad sakaður um fjölmörg sóttvarnabrot og fyrir að falsa ökuskírteini. Einnig var hann sakaður um að hafa hrækt á lögreglumenn á lögreglustöðinni við Hringbraut í Reykjanesbæ.
Einnig var Mohamad sakaður um brot á vopnalögum með því að hafa haft í fórum sínum útdraganlega kylfu sem ekki var ætluð til íþróttaiðkunar.
Mohamad Kourani var dæmdur í 12 mánaða fangelsi fyrir þessi brot en til frádráttar kemur sá tími sem hann hefur setið í gæsluvarðhaldi en það er frá 17. mars síðastliðnum til 16. júní.