DV ræddi við móður úr Grafarvogi vegna afar alvarlegs atviks sem átti sér stað í strætisvagni leið 6 á 17. júní. Maður, sem af mynd af dæma er á aldrinum 35-45 ára, áreitti þar tvær dætur hennar gróflega. Börnin eru 8 og 15 ára. Maðurinn horfði ögrandi og óviðurkvæmilega á 8 ára stúlkuna og sleikti varir sínar. Hann reyndi að setjast hjá henni en 15 ára systir hennar varnaði honum því. Var hann síðan með óviðurkvæmilegt tal við stúlkurnar allan tímann þar til þær fóru út úr vagninum.
Maðurinn er sakaður um að hafa áreitt fleiri börn. Meðal annars er atvik þar sem hann settist hjá 12 ára stúlku og krafði hana um símanúmerið hennar. Hann elti hana síðan úr úr vagninum og að stoppistöð þar sem stúlkan ætlaði að skipta um vagn, en hún sá þann kost vænstan að flýja manninn á harðahlaupum.
Móðirin sem DV ræddi við segir að maðurinn sé af erlendum uppruna en hann hafi hvorki virst vera andlega vanheill né undir áhrifum áfengis eða fíkniefna. Eldri dóttirin náði mynd af honum sem móðir hennar birti á Facebook.
„Ég er búin að fá þau skilaboð að hann hafi sjálfur farið til lögreglunnar til að kvarta yfir mér, út af myndbirtingunni,“ segir móðirin og hefur litlar áhyggjur af þeirri kvörtun. Sannleikurinn komi í ljós við rannsókn málsins. Sjálf er hún að fara að kæra. „Ég hringdi í 112 og þau tóku þessu mjög alvarlega. Á mánudag mun ég hafa samband við Strætó út af þessu og þá mun ég jafnframt kæra þetta til lögreglu.“
Konan var miður sín yfir því sem dætur hennar höfðu mátt þola er hún ræddi málið við DV. Hún segir málið liggja misþungt á dætrum hennar. „Yngri stelpan vill ekki fara í strætó aftur,“ segir hún. Yngri dóttirin hafi síður gert sér grein fyrir þeim óeðlilegu hvötum sem þarna lágu að baki en hún hafi upplifað það að sjá systur hennar rífast hástöfum við fullorðinn, ókunnugan karlmann, og það er vond reynsla sem situr í henni.
„Eldri stelpan er rosalega sterk týpa, hún lét ekki vaða yfir sig. En þess vegna finnst mér skrýtið að enginn skuli hafa gripið inn í. Strætóstjórinn gerði ekki neitt þó að það færi ekkert á milli mála að dóttir mín var að láta manninn heyra það.“
„Þetta er alveg ömurlegt,“ segir konan um upplifun sína og dætra hennar af þessir ógn. Hún er hins vegar staðráðin í því að fylgja þessu máli fast eftir.