Gunnar Smári Egilsson, félagi í Sósíalistaflokksins, gerir breytingu Seðlabanka Íslands á veðsetningarhlutfalli fyrir fyrstu kaupendur að umtalsefni í nýrri grein á Vísir.is.
Veðsetningarhlutfall fyrir þennan hóp er nú að hámarki 85% í stað 90% áður. Fyrstu kaupendur þurfa því að eiga meira eigið fé í upphafi til að komast yfir höfuð inn á fasteignamarkaðinn.
Hann tekur dæmi af íbúð þar sem fyrstu kaupendur þurfi vegna breytinganna að eiga 2,6 milljónum krónum meira í útborgun.
„Unga fólkið sem ekki á þessar auka 2,6 m.kr. er því dæmt til að greiða mánaðarlega 110 þús. kr. hærri húsnæðiskostnað en ef það fengi að kaupa íbúð. Það er því ólíklegra að unga fólkinu takist að safna upp í útborgun. Besta leiðin til að ná því væri að losna af leigumarkaði,“ segir hann.
„Svona er þetta nú allt öfugsnúið í ríki Ásgeirs Jónssonar Seðlabankastjóra, Bjarna Benediktssonar efnahagsmálaráðherra og Sigurðar Inga Jóhannssonar húsnæðismálaráðherra. Til að vinna á verðbólgu og eignabólu vilja þessir herramenn að unga fólkið borgi 110 þúsund krónum meira í húsnæðiskostnað. Hversu galið er það?“ segir Gunnar Smári.
Hann telur aðrar leiðir skynsamlegri. Til dæmis mætti setja lög sem banna lánadrottnum að taka íbúðir af fólki í tímabundnum fjárhagsefriðleikum eða lent í tímabundinni verðlækkun húsnæðis. Eða mögulega regluvæða leigumarkaðinn.
„Besta leiðin til að slá á hækkun húsnæðisverðs er að ráðast að meininu sjálfu, sem er braskvæðing markaðarins. Undanfarin ár hafa æ fleiri íbúðir farið til fólks og fyrirtækja sem eiga fleiri en eina íbúð, ekki til hefðbundinni kaupenda sem eru að kaupa heimili fyrir fjölskyldu sína.
Það er þessi ásókn braskara inn á markaðinn sem hefur spennt upp verðið. Þar sem þeir ætla að setja íbúðirnar út á óregluvæddan leigumarkað geta braskararnir borgað mun hærra verð en venjulegir kaupendur. Braskararnir ætla sér ekki að borga þessar íbúðir sjálfir heldur láta leigjendur borga þær fyrir sig.
Skaðinn af þessu er tvöfaldur. Fyrst hækkar fasteignaverð svo færri komast inn á séreignamarkað. Svo hækka braskararnir leiguna svo þau sem eru föst á leigumarkaði eru ólíklegri til að geta safnað fyrir útborgun í æ dýrari íbúðir,“ segir Gunnar Smári.