Undanfarið hafa listamann sem eru með vinnustofur í húsinu að Seljavegi 32 í Vesturbæ Reykjavíkur búið sig undir heimsóknir frá Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra og Lilju Alfreðsdóttur menningamálaráðherra en ráðherrarnir hafa nokkrum sinnum afboðað sig á síðustu stundu. Mikið er í húfi hjá listamönnunum því Samband íslenskra myndlistarmanna (SÍM) er nú samningslaust við ríkið varðandi leigu á húsnæðinu. Leigusamningurinn er útrunninn, til sendur að rífa húsið og 130 listamenn lenda á götunni um áramótin, ef svo fer fram sem horfir.
SÍM hefur undanfarið reynt að sannfæra ráðamenn um hvað húsnæðið og vinnustofurnar sem það hýsir séu mikilvægar fyrir myndlistarlífið í landinu og þar vegur þyngst að ná eyrum fjármálaráðherrans, Bjarna Benediktssonar, þar sem hann er yfirmaður fasteigna ríkisins. Er þar lykilatriði að fá ráðherrann í heimsókn svo hann geti séð með eigin augum það blómlega starf sem fram fer í húsinu. Bjarni og Lilja hafa þekkst boðið en hvað eftir annað afbókað sig á síðustu stundu, enda hafa verið miklar annir á Alþingi undanfarið núna rétt fyrir þinglok. DV hefur undir höndum tilkynningu sem Ingibjörg Gunnlaugsdóttir, formaður SÍM, sendi á listamennina á Seljavegi fyrr í mánuðinum, þar sem heimsókn Bjarna var yfirvofandi. „Það er mjög mikilvægt að sem flestar vinnustofur séu opnar og það sé líf í húsinu. Við erum jú að sýna honum fram á mikilvægi hússins fyrir starfsemi myndlistarmanna. Eins og þið vitið erum við að berjast fyrir því að halda húsnæðinu, en eftir öll lætin í fyrra, gengur það ekki of vel. Svarið sem ég fékk við síðasta bænaskjali mínu til Fasteigna ríkisinsm var, að við fáum að vera til áramóta,“ segir Ingibjörg þar, og nokkru neðar:
„Fjármálaráðherra er auðvitað sá sem ræður þessu, en allar fasteignir ríkisins heyra undir hans ráðuneyti. Bjarni kemur 7. júní kl. 15:00.“
Listamennirnir settu sig í viðbragðsstöðu og gerðu sig klára fyrir heimsókn ráðherrans, en hann kom ekki. Það sama hefur gerst varðandi Lilju Alfreðsdóttur menningarráðherra.
„Þetta er orðinn hálfgerður brandari því erum erum nokkrum sinnum búin að vera tilbúin að taka á móti þeim með opnum vinnustofum en það er svo mikið að gera í þingingu að þau komast ekki, sem er svo sem alveg skiljanlegt,“ segir Ingibjörg í viðtali við DV. Hún telur SÍM njóta velvildar hjá ráðamönnum og gerir sér vonir um að telja þeim hughvarf, ef þeir bara koma á staðinn.
„Bjarni er búinn að boða komu sína á mánudaginn og við að vona að hann komi því við því hann er yfir þessum fasteignum ríkisins. Við erum líka að vona að hann sjái hvað við erum að gera og hvað það er mikilvægt. Myndlistarmenn eiga mjög erfitt að vera án vinnustofu en við rekum vinnustofur fyrir 240 manns. Eins og staðan er í stað þá eru fimm leigusamningar í fimm vinnustofuhúsum í gangi en þetta hús er langmikilvægast, án þess eru 130 listamenn á götunni.“
Myndlistin hefur fest rætur á Seljavegi 32:
„Við höfum verið þarna í 17-18 ár og höfum fjárfest mikið í þessu húsnæði. Við erum líka þarna með gestavinnustofu undir gestavinnuprógrammi SÍM fyrir erlenda listamann en þetta prógramm hefur verið í gangi í 20 ár. Í gegnum það koma hingað listamenn hvaðanæva úr heiminum og dveljast í 1-3 mánuði. Á þessum 20 árum hafa komið um 3.600 listamenn sem hafa haft gífurleg og mikilvæg áhrif á listasenuna í Reykjavík. Þetta samstarf er í uppnámi ef við missum húsið,“ segir Ingibjörg, áhyggjufull en vongóð um að henni takist að telja yfirvöldum hughvarf.
Leigusamningurinn er fyrir löngu útrunninn en listamennirnir mega vera þarna fram að áramótum. Eftir það er fyrirhugað niðurrif.
„Við höfum átt í góðu samstarfi við Fasteignir í ríkisins og ekki yfir neinu að kvarta þar en þau hafa sína yfirboðara og ef þeim er sagt að segja okkur upp þá verða þau að gera það. Við bindum vonir við að Bjarni skipti um skoðun þegar hann sér hvað þetta hús er mikilvægt fyrir starf myndlistarmanna,“ segir Ingibjörg, sem vonar að látið verði nægja að byggja upp á dýrmætri lóðinni í kringum húsið en húsið sjálft fái að standa áfram.
Og svo vonar hún innilega að Bjarni geti mætt í boðaða heimsókn sína á Seljaveginn á mánudag.