Íslensk kona að nafni Sarah Helena Wilhelmsen sem er búsett í Michigan í Bandaríkjunum var ákærð fyrr á árinu fyrir umferðarlagabrot sem leiddi til dauðsfalls („moving violation resulting in death“) vegna umferðarslyss sem átti sér stað í þorpinu Berrien Springs í Michigan þann 30. janúar síðastliðinn. Sjá nánar.
Sarah er 35 ára gömul. Samkvæmt lýsingu frænda hennar, Þrastar Þórðarsonar, var hún að hægja ferðina er nágranni hennar gekk í veg fyrir hana og varð fyrir bílnum. Nágranninn lést á sjúkrahúsi tveimur vikum síðar.
Sarah á yfir höfði sér allt að eins árs fangelsi og háar fjársektir. Tveimur dögum eftir slysið gekkst hún undir erfiða skurðaðgerð vegna krabbameins.
Þröstur Þórðarson, frændi Söruh, gekkst fyrir fjársöfnun handa frænku sinn á síðunni gofundme.com. Nú þegar hafa um 1,7 milljón króna safnast en þar sem málið mun fara fyrir dóm mun það ekki duga til og önnur fjáröflun hófst um daginn.
„Þetta er önnur fjáröflunin sem ég hef byrjað fyrir Söru. Við söfnuðum um 13.000 dölum sem var nóg til að borga lögfræðingi í upphafi. Ég vonaðist til þess að málinu yrði vísað frá en við nú stefnum við að réttarhöldum og þá mun kostnaður verða meira. Næstkomandi fimmtudag, 17. júní, eigum við fund með dómara og saksóknara, þar sem línur verða lagðar og dagsetning ákveðin fyrir réttarhöldin,“ sagði Þröstur í færslu á GoFundMe síðunni sem heldur utan um fjáröflunina.
Kostnaðurinn mun að öllum líkindum ná 40.000 dölum [um 5,2 milljónir króna.] Við höfum þegar safnað 13.000 í fyrri fjáröfluninni. Þess vegna þurfum við að safna meiru og settum okkur 25.000 dala markmið og ég vona að þetta dugi fyrir kostnaðinum,“ bætti Þröstur við.
Nánar má lesa um málið hér og á sama stað er hægt að leggja Söru lið.