Fréttablaðið skýrir frá þessu. Blaðið hefur eftir Þórólfi Guðnasyni, sóttvarnalækni, að stór hluti þeirra sem greinist nú sé ferðamenn eða fólk sem er ekki búsett hér á landi. Suma daga sé hlutfall þeirra 50 prósent. „Við vitum ekki nákvæmlega hvaða fólk þetta er en líklegast eru þetta mikið Bandaríkjamenn, sem eru mikil uppistaða í ferðamennsku hér og þeir hafa þurft að sýna fram á neikvætt próf við komuna heim en sú regla var þó afnumin þann 12. júní,“ er haft eftir honum.
Hann sagði algengt sé að fólk sé að smitast í fyrsta sinn, vel sé fylgst með endursmitum en þau séu sjaldgæf. Hann sagði einnig að um fimmtungur þeirra sem greinast nú séu með BA.5 afbrigðið en það greindist fyrst hér á landi í maí.
„Sem betur fer eru ekki margir að veikjast alvarlega þótt það (sic) einhverjir á spítala og einn á gjörgæslunni. Þetta er bara enn þá með okkur og faraldurinn er ekki búinn,“ sagði hann og hvatti fólk til að láta bólusetja sig og þá sem eru með undirliggjandi sjúkdóma eða orðnir áttræðir hvetur hann til að þiggja fjórða skammtinn. „Sjúkdómurinn er klárlega miklu vægari hjá bólusettum en óbólusettum. Læknar sem taka á móti þessum sjúklingum, sjá þá og fást við þá, segjast sjá greinilegan mun þarna á milli og það getur enginn greint það betur þó að einhverjir úti í bæ sem hafa aldrei komið nálægt Covidsjúklingum hafi aðra skoðun á því,“ sagði hann.