Lögreglan rannsakar nú meint fjársvik sem sögð eru hafa verið í því fólgin að maður komst yfir leyninúmer á bankareikningi kunningja síns, hringdi í Landsbankann og millifærði 200 þúsund krónur af reikningi mannsins. Eitthvað varð til þess að brotaþolinn sagði leyninúmerið upphátt svo hinn meinti brotamaður heyrði til.
Brotaþolinn var í sambandi við DV vegna málsins og bendir hann á að þó að tvö hundruð þúsund krónur séu ef til vill ekki há upphæð í huga allra séu þetta peningar sem hann muni gífurlega mikið um, enda er hann eignalaus öryrki.
Sem fyrr segir er málið í rannsókn hjá lögreglu en brotaþolinn hefur fengið sent bréf frá Lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu þar sem honum er gefinn kostur á því að gera skaðabótakröfu sem lögð verður fram sem einkaréttarkrafa í væntanlegu refsimáli gegn fjársvikaranum.
Í huga flestra telst það ef til vill nokkuð frumstæð aðgerð að taka út peninga með því að hringja í símanúmer bankans og gefa upp leyninúmer. DV sendi erindi á Landsbankann vegna þessa og er fyrirspurnin svohljóðandi:
„Ég hef fengið upplýsingar um að mál sé til rannsóknar hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu sem varðar kæru um að einstaklingur hafi tekið fé út af reikningi annars einstaklings með símtali í bankann og því að gefa upp pin-númer. Um er að ræða reikning hjá Landsbankanum.
Fyrirspurn mín er þessi: Nægir að gefa upp pin-númer til að taka út fé af reikningi með símtali? – Ef svo, eru svo frumstæðar aðferðir enn við lýði til að koma til móts við þá sem kunna ekki á tölvur og snjalltæki?“
Fyrir svörum varð Rúnar Pálmason, á upplýsingasviði bankans, og segir hann að þessi möguleiki sé fyrir hendi til að koma til móts við þá viðskiptavini sem ekki geta nýtt sér app eða netbanka. Vill bankinn ítreka mikilvægi þess að viðskiptavinir gæti vel að leyninúmerum sínum:
„Til að koma til móts við viðskiptavini sem af einhverjum orsökum geta ekki nýtt sér app eða netbanka þá bjóðum við upp á þann möguleika að viðskiptavinir geta hringt í bankann og óskað eftir tilteknum aðgerðum, t.d. greiða reikning eða millifæra. Til þessa að hægt sé að framkvæma slíkar aðgerðir þarf viðskiptavinur að gefa upp leyninúmer sem hann einn á að vita. Við ítrekum mikilvægi þess að viðskiptavinir gæti vel að leyninúmerum sínum og skrifi þau hvorki niður né visti á síma þar sem mögulegt er að óviðkomandi geti séð þau.
Aðgerðum af þessu tagi hefur fækkað mjög á undanförnum árum, eftir því sem notkun á appi og netbanka hefur orðið almennari. Svik af því tagi sem fyrirspurn þín lýtur að um eru afar fátíð. Við höfum samt sem áður um nokkurt skeið unnið að tilteknum breytingum sem munu draga enn frekar úr hættunni á svikum.“