Á fjórða tímanum á aðfaranótt mánudags var maður handtekinn í Mosfellsbæ, grunaður um líkamsárás og hótanir, auk þess sem hann er grunaður um að hafa verið að sprengja hvellhettur. Greint frá frá málinu í dagbók lögreglu en á bak við þá stuttu færslu er löng sorgarsaga.
Maðurinn, sem er 35 ára, er fjársjúkur alkóhólisti sem hefur grátbeðið um að verða lagður inn en kemur alls staðar að lokuðum dyrum. Hann hótar þess vegna lögbrotum og stendur við þær hótanir, í því skyni að komast undir manna hendur í stutta stund og frelsast undan eigin stjórnleysi.
Manninum var sleppt úr haldi lögreglu síðdegis í gær. Hann er núna á götunni því maðurinn sem hann réðst á um helgina er leigusalinn hans.
Móðir mannsins leitaði, ásamt honum, ásjár hjá geðsviði Landspítalans á föstudaginn og fékk hann viðtal þar. „Okkur var síðan sagt að koma aftur með hann á laugardaginn. Hann var mjög æstur og undir áhrifum en hann kom af fúsum og frjálsum vilja,“ segir móðirin í viðtali við DV.
Hún segir að sonur hennar hafi verið tilbúinn að leggjast inn á geðdeild og hafi hlakkað til þess. „Hann var alveg jákvæður, fór í bað og græjaði sig í innlögn, búinn að taka til tannburstann og græja allt í bakpoka.“
En svo kom babb í bátinn. Eftir viðtalið á laugardeginum var þeim tjáð að hann yrði ekki lagður inn. Ástæðan væri sú að hann hefur enga greiningu um geðsjúkdóm.
„Hann hefur farið í nokkrar áfengismeðferðir og átt góða tíma en svo fallið á ný. Hann sótti um inni á Vogi fyrir tveimur mánuðum og þar vita þau ekki hvenær hann kemst að, biðtíminn er sagður vera 3-6 mánuðir. Hann hefur líka sótt um í Krýsuvík og Hlaðgerðarkoti, sem og á áfangaheimilum, sem vissulega vilja taka við honum. En skilyrðið er það sama á öllum þessum stöðum, það verður að vera búið að þurrka hann upp. Þar stendur hnífurinn í kúnni.“
Raunar á afvötnun að standa í boði á einni geðdeild Landspítalans, fíknigeðdeild, en sonurinn fær ekki að leggjast þangað inn, að sögn vegna skorts á greiningu.
„Fyrst verður hann að komast í afvötnun, hann þarf einfaldlega að fara í þurrkarann. Eftir það er hægt að vinna í greiningum,“ bendir móðirin á.
Lögregla tjáði henni að þegar sonur hennar var handtekinn á sunnudagsnóttina hafi hann verið skólaus og úlpulaus. Ástandið á manninum er skelfilegt og í gær þegar lögregla hafði samband við konuna til að tjá henni að hann væri að losna úr haldi, var maðurinn í miklum fráhvörfum og mikilli vanlíðan.
„Hann er búinn að hóta að drepa mann og annan en þetta er bara ákall á hjálp. Hann vill komast undir manna hendur og fá hjálp,“ segir konan.
Hún segist, að ráði lögreglu, hafa haft samband við héraðslækni vegna málsins, sem kemur að nauðungarvistunum sem álitsgjafi. Héraðslæknir hafi hins vegar sagt að forræðið væri hjá geðdeildum Landspítalans og vildi ekki beita sér í málinu.
„Við erum svefnlaus og úrvinda út af þessu ástandi og sonur okkar er að missa vonina,“ segir konan. Hún segir að sonur hennar verði að komast í afvötnun sem fyrst, það sé eina raunhæfa byrjunin á batanum. Og þar til gripið verður til þeirra úrræða sé sonur hennar hættulegur sjálfum sér og öðrum.