fbpx
Laugardagur 15.mars 2025
Fréttir

Íslenskt bakarí slær í gegn í Maine í Bandaríkjunum

Rafn Ágúst Ragnarsson
Þriðjudaginn 14. júní 2022 11:15

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Á Main Street, í smábænum Dover-Foxcroft í Maine-fylki, blasir við sérkennileg sjón. Einn búðarglugginn skartar íslensku fánalitunum og á glugganum stendur á íslensku: „Velkomin í bakaríið okkar,“ með sömu skilaboðum á ensku á hinum glugganum. Inni eru ljósmyndir af íslenskri náttúru, stærðar íslenskur fáni og ilmurinn af nýbökuðum kleinum og vínarbrauði lokkar viðskiptavini inn af götunni.

Hin 32 ára Íris Óskarsdóttir-Vail ólst upp á mjólkurbúi í Skíðadal og flutti svo til Reykjavíkur til að læra bakaraiðn í Menntaskólanum í Kópavogi. Hún var fjögur ár í því námi og var í starfsnámi með skólanum í mörgum mismunandi bakaríum. Árið 2014 varð Íris fyrsta konan til að gera Köku ársins.

„Ég bý á Íslandi og ég á ísbjörn sem gæludýr“

Íris kynntist eiginmanni sínum á pennavinasíðu sem tengir saman fólk sem vill læra íslensku og fólk sem hefur íslensku að móðurmáli. „Ég gerði reikning í gríni og sagði, „Ég bý á Íslandi, og ég á ísbjörn sem gæludýr,““ sagði hún við Bangor Daily News. Hún náði sambandi við Joel Vail og eftir nokkra mánuði af spjalli og ferð til Bandaríkjanna voru þau trúlofuð.

Tengdaforeldrar Írisar, þau Charlie og Jen Vail, tóku mikla áhættu við að opna bakarí í miðjum heimsfaraldri en viðskiptin ganga gríðarvel og Vail’s Custom Cakes and Icelandic Bakery fagnaði sínu fyrsta starfsafmæli í síðasta mánuði.

Það er samvinna fjölskyldunnar sem drífur reksturinn áfram og á bakaríið miklu fylgi að fagna á samfélagsmiðlum. Charlie og Jen eru bæði í fullu starfi annars staðar en þau koma bæði snemma í bakaríið til að hjálpa til við undirbúning og vinna þar flesta laugardaga. Þegar bakaríið fyrst opnaði vann bróðir Charlie í hlutastarfi þar og stundum hjálpar dóttir þeirra Hannah líka til.

„Viðbrögð fólks hafa verið hálfyfirþyrmandi“

Íris kláraði um 800 sérpantanir á síðasta ári, sagði hún. „Viðbrögð fólks hafa verið hálfyfirþyrmandi. Það eru allir svo glaðir og þakklátir okkur fyrir að vera hér. Við sjáum mörg sömu andlitin hérna alla daga, eða annan hvern dag. Það er okkur mikil hvatning,“ sagði Íris.

Tengdafaðir Írisar segir hana vera listamann sem vinnur í kökum og bakkelsi. Íris byrjar daginn klukkan hálf þrjú eða þrjú um morgun og byrjar að vinna í pínulitla eldhúsi bakarísins við að gera kleinur, snúða og annað kruðerí með íslenskan uppruna.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

„Hvað ætlum við að gera öðruvísi núna svo við höldum ekki áfram að framleiða hættulega afbrotamenn á færibandi?“

„Hvað ætlum við að gera öðruvísi núna svo við höldum ekki áfram að framleiða hættulega afbrotamenn á færibandi?“
Fréttir
Í gær

Trausti sár út í Sönnu – „Mér fannst eins og þú tækir ekki mark á því sem ég væri að segja“

Trausti sár út í Sönnu – „Mér fannst eins og þú tækir ekki mark á því sem ég væri að segja“