Jótlandspósturinn ræddi við Flemming Splidsboel, sérfræðing í rússneskum málefnum hjá Dansk Institut for International Studier, um stöðuna á vígvöllunum í Úkraínu. Hann sagði rétt að Rússar séu með yfirhöndina eins og er en staðan sé ekki einföld þrátt fyrir það.
Hann sagðist horfa á þetta sem þrívíddarskák þar sem taflmennirnir eru færðir fram og aftur, til hliðanna og einnig upp og niður. Það sé hugsanlega rétt að Úkraínumenn eigi nú í vök að verjast hernaðarlega séð en á móti hafi þeir yfirhöndina þegar kemur að pólitískum þrýstingi og geti hugsanlega nýtt sér það í heildarsviðsmyndinni. Allt tengist þetta og það geti haft áhrif á heildarmyndina.
„En ég hef áður sagt að Rússar séu nú þegar búnir að tapa. Í mínum augum er það skýrt að þetta hefur kostað Rússland alltof mikið en það geta þeir engan veginn játað og reyna að segja að þetta gangi vel og Vladímír Pútín líkir sér við Pétur mikla,“ sagði hann.
Hann sagði að enn liggi ekki fyrir hvaða áhrif vopnasendingar Vesturlanda til Úkraínumanna hafi. Hann sagði einnig að nú séu markmið Rússa að skýrast. Þeir ætli að leggja Donetsk, Luhansk, Zeporizjzja og Kherson undir sig og undirbúi nú innlimum héraðanna í Rússland í sumar og muni efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um það. Ef þeim tekst þetta verður það mikil breyting fyrir Rússland að hans mati. Ef Úkraína eða Vesturlönd reyni að hrekja þá frá þessum svæðum með hernaðarmætti muni Rússar segja að nú sé verið að fara yfir rauðu línuna og þá verði þeir tilbúnir til að beita kjarnorkuvopnum.