Leikaraparið Guðmundur Felixsson og Þuríður Blær Jóhannsdóttir segja farir sínar ekki sléttar af samskiptum við dýraþjónustu Reykjavíkurborgar. Starfsfólk borgarinnar kom um helgina og fjarlægði köttinn þeirra vegna kvartana frá ósáttum nágranna en nú er kötturinn týndur.
„Reykjavíkurborg týndi kettinum okkar,“ segir Guðmundur í færslu á Facebook þar sem hann biðlar til fólks að hafa augun opin fyrir kettinum þeirra, henni Nóru. Samkvæmt þeim upplýsingum sem þau fengu frá borginni týndist Nóra í Laugardalnum, sem er órafjarri heimili hennar í 101 Reykjavík. Má því gera ráð fyrir að hún sé bæði villt og svöng.
Nóra er grábröndótt með ljósbrúna flekki og hvítar doppur, og ólarlaus.
Guðmundur segir að enginn hafi látið þau vita eftir að Nóra var tekin „og það var ekki fyrr en ég fór að spyrjast fyrir og yfirheyra téðan nágranna um málið að við komumst að því hvað hefði orðið af henni. Það var svo allt lokað í gær og því gátum við ekki haft samband við Reykjavíkurborg að leita svara um hvar kötturinn okkar væri niður komin. Þegar Blær náði loksins sambandi við starfsmanninn sem var með málið á sinni könnu í hádeginu í dag tjáir hann henni að Nóra hafi sloppið úr þeirra haldi FYRIR SÓLARHRING SÍÐAN og sé núna týnd einhversstaðar í Laugardalnum, langt langt í burtu frá heimili sínu í 101 Reykjavík.“
Hann bendir á að á þessum sólarhring hafi aldrei reynt að ná sambandi við þau. „Í stað þess að hringja í nágrannann okkar (sem kvartaði) og láta vita og kannski spyrjast fyrir um hverjir væru eigendur kattarins ákváðu starfsmenn Umhverfissviðs að bíða þangað til við hringdum sjálf. Þannig að við áttum bara að fatta sjálf að Reykjavíkurborg hefði tekið hana og taka sjálf upp á því að hringja?? Ég skil ekki neitt og ég er algjörlega brjálaður,“ segir Guðmundur.
Hægt er að ná í Guðmund í síma 698-8712 og Blæ í síma 699-4457