The Guardian hefur eftir Brian Daniels, mannfræðingi sem starfar í sérfræðingahópnum, að sterk gögn séu komin fram um að Rússar geri þetta af ásettu ráði. Þeir leggi sérstaka áherslu á málverk og skrautmuni.
Allt frá því að innrás Rússa í Úkraínu hófst hafa sérfræðingarnir fylgst með eyðileggingu og skemmdarverkum á sögulegum og menningarlegum stöðum. Þeir gera þetta frá rannsóknarstofu í Virginíu í Bandaríkjunum.
Sérfræðingarnir hafa séð ákveðið mynstur í þessum glæpum. Þeir segja að mikil áhersla sé lögð á að stela Scythina gulli en það eru fornir munir, víravirkismunir, sem oft eru í formi dýra. Þetta eru mjög fagrir gripir að sögn Daniels sem sagði að svo mörgum slíkum gripum hafi verið stolið að ljóst sé að um ákveðna taktík sé að ræða hjá Rússum.
Í samtali við the Observer sagði hann að erfitt sé að segja til um hvort það sé fjárhagslegt verðmæti eða menningarlegt gildi munanna sem skipti Rússa mestu. Ekki sé útilokað að þetta sé liður í því að grafa undan þjóðernisvitund Úkraínumanna.