Soldatov skýrði frá því á Twitter í síðustu viku að nú sé búið að frysta reikninga hans í rússneskum bönkum og setja nafn hans á lista yfir eftirlýst fólk.
Soldatov er sérfræðingur í málefnum rússneskra leyniþjónustustofnana og einn þekktasti rannsóknarblaðamaður Rússlands. Hann býr þó ekki lengur í Rússlandi.
The Moscow Times, sem er óháður fréttamiðill, segir að Soldatov hafi komist að því að hann sé kominn á lista yfir eftirlýsta Rússa þegar tveir rússneskir bankar skýrðu honum frá því að búið væri að frysta innistæður hans.
Það var að sögn gert 17. mars en hann komst ekki að þessu fyrr en í síðustu viku.
Þetta kemur honum ekki á óvart því hann og samstarfsfólk hans hafa verið undir miklum þrýstingi að undanförnu eftir ýmsar afhjúpanir tengdar Rússlandi. Í samstarfi við Irina Borogan hefur hann meðal annars skýrt frá hreinsunum innan leyniþjónustunnar FSB. Meðal annars handtöku Sergej Beseda, eins æðsta yfirmanns FSB, en hann var settur í gæsluvarðhald í Lefortovofangelsinu.
„Ég gat ekki séð nákvæmlega fyrir hvað myndi gerast en það var ljóst að fyrir FSB var mikilvægt að þessar upplýsingar, um að eitthvað væri að innan FSB, myndu einfaldlega hverfa,“ segir Soldatov.