fbpx
Mánudagur 30.desember 2024
Fréttir

Nýr íslenskur sparisjóður opnar í haust – Engin færslugjöld og hærri vextir

Ritstjórn DV
Laugardaginn 11. júní 2022 17:28

Haukur Skúlason og Tryggvi Björn Davíðs­son, stofnendur indó. Mynd/indó

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„indó er nýr staður fyrir peningana þína. Við erum ekki einn af gömlu bönkunum heldur sparisjóður og við ætlum að vera betri en bankarnir.“ Þetta kemur fram í lýsingu á markmiðum nýja sparisjóðsins sem reiknað er með að opni í haust. Þar verða engin færslugjöld og hærri innlánsvextir en hjá stóru bönkunum.

Stofnendur indó eru Tryggvi Björn Davíðsson sem á 18,7% í félaginu og Haukur Skúlason sem á 13,6% eins og kemur fram í hlutaskrá.

Þeir hafa þekkst síðan í grunnskóla og hafa báðir lengi starfað á fjármálamarkaði. Haukur starfaði til að mynda í tíu ár hjá Íslandsbanka sem forstöðumaður framtaksfjárfestinga og forstöðumaður greiningar og stefnumótunar á viðskiptabankasviði. Tryggvi var síðan framkvæmdastjóri markaða hjá Íslandsbanka og þar á undan starfaði hann við að byggja upp skuldabréfafjárfestingasvið breska bankans Barclays Capital í London.

Áhersla á samfélagsábyrgð

Annar stærsti eigandinn er Gnitanes ehf. sem á 14,5% og sá fjórði stærsti er Ueno ehf. sem á 5,8%. Stofnandi Ueno er Haraldur Þorleifsson sem meðal annars hefur staðið fyrir verkefninu Römpum upp Reykjavík og hefur mikið talað fyrir samfélagslegri ábyrgð.

Það er í takt við markmið indó sem mun beina 5% af hagnaði hvers árs til samfélagsverkefna.

indó hefur verið í undirbúningi frá árinu 2018. Sparisjóðurinn fékk starfsleyfi frá Seðlabanka Íslands nú í febrúar en hann tryggði sér tæplega 600 milljóna króna fjármögnun síðasta haust. Þann 9. maí síðastliðinn tengdist indó kerfum Reikninstofu bankanna og í sumar verða notendaprófanir en hægt er að skrá sig á lista til að taka þátt í þessum prófunum. Í haust er síðan stefnt að því að leggja lokahönd á indó-appið og undirbúa opnun fyrir alla sem vilja koma í viðskipti. Starfsemin verður alfarið á netinu.

Í boði verður að hafa reikning, debetkort, greiða kröfur og framkvæma millifærslur. Frekari þjónusta er síðan í þróun.

„Við þurfum ekki að vera risastór eða byggja glerhöll“

Í markmiðalýsingu indó kemur meðal annars fram: „Sem sparisjóður þá viljum við starfa í sátt við nærsamfélagið og taka virkan þátt í að bæta það. Við þurfum ekki að vera risastór eða byggja glerhöll til að geta boðið góða þjónustu. Við bjóðum betri kjör og leggjum okkur fram við að skilja þarfir viðskiptavina og leysa vandamál sem koma upp á sanngjarnan hátt.“

indó segist geta boðið betri kjör en aðrir með því að nýta sér nýjustu tækni og skilvirkni í rekstri, það verður ekkert óhemju flókið tölvukerfi og engar risavaxnar höfuðstöðvar.

Hér á heimasíðu indó má fræðast meira um sparisjóðinn en þar er lögð áhersla á gagnsæi og mikið af upplýsingum aðgengilegar á netinu.

Stjórn indó er svo skipuð aðalmönnum:

  • Guðmundur Fertram Sigurjónsson — formaður stjórnar

Guðmundur er forstjóri Kerecis og hefur áralanga reynslu af rekstri frumkvöðlafyrirtækja og vexti þeirra í farsæl, alþjóðleg fyrirtæki.

  • Gréta María Grétarsdóttir — aðalfulltrúi

Gréta María er framkvæmdastjóri Arctic Adventures og fyrrum framkvæmdastjóri Krónunnar.

  • Inga Birna Ragnarsdóttir — aðalfulltrúi

Inga Birna er framkvæmdastjóri markaðssviðs Wise og hefur áralanga reynslu sem framkvæmdastjóri og markaðsstjóri í flugbransanum og hjá IT fyrirtækjum.

  • Sigþór Sigmarsson — aðalfulltrúi

Sigþór er fyrrum stjórnarformaður NOVA og framkvæmdastjóri hjá Novator.

  • Theódór Gíslason — aðalfulltrúi

Theódór er einn stofnenda netöryggisfyrirtækisins Syndis og yfirmaður tæknimála hjá Syndis.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Ólafur sendir Björgvin Njál ískalda kveðju – Skattgreiðendur geti hugsað hlýlega til hans þegar greitt er

Ólafur sendir Björgvin Njál ískalda kveðju – Skattgreiðendur geti hugsað hlýlega til hans þegar greitt er
Fréttir
Í gær

Skuggahliðar Home Alone-stjörnu

Skuggahliðar Home Alone-stjörnu
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Blaðamaður Samstöðvarinnar mátti kalla eigendur Elju þrælahaldara – Var krafinn um 15 milljónir í bætur

Blaðamaður Samstöðvarinnar mátti kalla eigendur Elju þrælahaldara – Var krafinn um 15 milljónir í bætur
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Greina frá banaslysi tíu ára drengs sem búsettur var á Íslandi – Ökukennari ákærður fyrir manndráp

Greina frá banaslysi tíu ára drengs sem búsettur var á Íslandi – Ökukennari ákærður fyrir manndráp