Reynir Traustason, ritstjóri Mannlífs, var í gær úrskurðaður brotlegur við siðareglur Blaðamannafélags Íslands (BÍ) vegna tveggja kæra frá Róberti Wessmann sem sakaði Reyni um ósannindi í umfjöllun um sig í Mannlífi.
Við sögum frá fyrri kærunni í gær, þar sem Róbert kærði vegna fimm greina í Mannlífi, en í síðari kærunni er kært vegna tveggja greina, önnur er með fyrirsögninni „Svafa Grönfeld ætlar að bera vitni: Svarar spurningum um meinta líkamsárás Roberts á Phil Price“, hin með fyrirsögninni „Vitni staðfestu líkamsárásir Róberts við Fréttablaðið – Svafa vonaði að „þetta fréttist ekki“.
Siðanefnd tekur ekki afstöðu til sanngildi fréttanna heldur finnur Reyni brotlegan við siðareglur á þeim forsendum að hann hafi þegið greiðslur frá Halldóri Kristmannssyni, heimildarmanni sínum í þessum fréttaflutningi, vegna bókaskrifa, og sé þar með orðinn vanhæfur til að fjalla um mál sem honum tengjast.
Siðanefnd fann Reyni brotlegan í tveimur kærum Róberts Wessmann sama daginn og þykir slíkt einsdæmi. Brotin eru sögð alvarleg.