„Lögreglan var að hringja í mig og segja mér að hann yrði látinn laus klukkan 12 á hádegi. Þetta væri ekki nógu alvarlegt til að halda honum lengur. Ég er skilin eftir í óvissu,“ segir ung kona sem DV var í sambandi við í morgun. Meðfylgjandi eru myndir af skelfilegu ofbeldisatviki sem átti sér stað á fimmtudaginn í síðustu viku. Maðurinn braut þá inn til konunnar þar sem hún býr með vinkonu sinni. Hann ógnaði vinkonu hennar með hnífi og réðst síðan á konuna þar sem hún svaf í rúmi sínu. Meðfylgjandi eru myndir af vettvangi, af blóðugu rúmi konunnar og stungusári í handlegg hennar.
„Hann braust inn um svaladyrnar og ógnaði vinkonu minni með hníf. Síðan réðst hann á mig þar sem ég var sofandi í rúminu og reyndi að kyrkja mig. Ég hrekk upp og hann stingur mig í handlegginn.“
Auk þess stakk maðurinn hana í fótinn.
Konan segir að maðurinn hafi áður verið vinur hennar. „Ég taldi hann vera vin minn,“ segir hún en árásin var nánast tilefnislaus, eða: „Ég svaraði ekki síma.“
Konan segir að árásarmaðurinn hafi flúið af vettvangi þegar hún náði taka upp síma sinn og hringja á hjálp.
Maðurinn hefur áður gerst sekur um ofbeldi og í október verður tekið fyrir mál þar sem hann er sakaður um að hafa ráðist á vinkonu fyrrverandi kærustu sinnar með barsmíðum í afbrýðisemikasti.
Konan sem DV ræddi við er lömuð af ótta vegna þess að ofbeldisgerandi hennar gengur núna laus. Myndi hún vilja sjá hann í síbrotagæslu. „Ég er ekki sú eina sem hef lent í honum. Ég geng bara á veggi og mér er ekki boðið upp á neitt,“ segir konan sem upplifir sig mjög varnarlausa.