Landsréttur stytti í gær gæsluvarðhald yfir manni sem Héraðsdómur Reykjaness hafði áður úrskurðað í gæsluvarðhald til 4. júlí. Eftir úrskurð Landsréttar liggur fyrir að maðurinn skal vera í gæsluvarðhaldi til 16. júní.
Málsatvik eru reifuð í úrskurði héraðsdóms og kemur þar fram að sjö mál komu upp vegna mannsins á ellefu dögum. Voru þar um að ræða sprengjuhótanir gegn Alþingi auk ráðhússins í Reykjanesbæ, sem og líflátshótanir gegn fólki í verslunarmiðstöðinni Firði í Hafnarfirði. Um málsatvik segir eftirfarandi í úrskurði héraðsdóms:
Þann 16. mars 2022, kl. 14:07, var kærði handtekinn við Ráðhús Reykjanesbæjar, vegna gruns um að hann hafi fyrr um daginn sent tvo tölvupósta á ensku á netfang embættis lögreglustjórans á Suðurnesjum, þar sem fram kom að sprengiefni væri í byggingunni og að rýma ætti hana. Í kjölfar handtöku hrækti kærði á lögreglumenn (mál lögreglu nr. 008-2022-[…]). Var hér um sjöunda mál kærða að ræða á 11 dögum fyrir handtöku hans, sbr. eftirfarandi upptalningu.
Þann 16. mars 2022 barst Ríkissaksóknara einnig sams konar sprengjuhótun og lögreglustjóranum á Suðurnesjum, um svipað leyti og úr sama tölvupóstfangi. Beindist grunur strax að kærða af ástæðum sem raktar eru betur hér að neðan, sbr. meðfylgjandi gögn.
Þann 15. mars 2022 barst lögreglu tilkynning frá manni er kvað kærða þá vera að ráðast að sér með líflátshótunum í Firði, Hafnarfirði, en umræddur maður kvaðst hafa kært kærða áður (mál lögreglu nr. 007- 2022-[…]). Lögregla kom á staðinn og hitti fyrir kærða og tilkynnanda.
Þann 10. mars 2022 barst Alþingi sprengjuhótun með tölvupósti á ensku, þar sem fram kom að sprengja myndi springa þá þegar. Framkvæmd var sprengjuleit af sprengjuleitarsérfræðingum, sérsveit og hundi (mál lögreglu nr. 007-2022-[…]). Þótti hótunin bera kennimark kærða, sem er einnig grunaður um ítrekaðar sambærilegar sprengjuhótanir, bæði árið 2021 og í mars 2022.
Þann 7. mars 2022 bárust Securitas hf. þrjú árásarboð úr afgreiðslu Ríkissaksóknara. Þegar lögregla kom á vettvang var kærði þar og var æstur. Ræddi lögregla við hann og starfsmenn Ríkissaksóknara. Kom þar fram að kærði hefði haft uppi beinar líflátshótanir í garð tiltekins opinbers starfsmanns. Var kærði handtekinn í kjölfarið (mál lögreglu nr. 007-2022-[…]).
Þann 7. mars 2022 var einnig tilkynnt um að kærði hefði hótað ofangreindum opinberum starfsmanni ítrekað lífláti með tölvupósti sólarhringinn áður en kærði mætti svo í afgreiðslu Ríkissaksóknara eins og að ofan er lýst (mál lögreglu nr. 006-2022-[…]). Í málinu er einnig að finna upplýsingar um að kærði hafi einnig sent slíkar hótanir með tölvupósti í janúar 2022.
Þann 5. mars 2022 kom kærði á bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi og hótaði því að sprengja spítalann ef hann fengi ekki afgreiðslu innan 45 mínútna, lamdi í tölvuskjá og braut sótthreinsistand og dælu (mál lögreglu nr. 007-2022-[…]). Starfsmenn spítalans greindu lögreglu frá því að þau þekktu til kærða og að
hann hefði áður haft í hótunum og verið til vandræða.
Maðurinn er grunaður um fleiri afbrot sem tilgreind eru í úrskurðinum en úrskurði Landsréttar og héraðsdóms í máli mannsins má lesa hér.