Fimm kvartanir bárust siðanefnd Sálfræðingafélags Íslands á árunum 2019-2021 vegna vinnubragða sálfræðinga í forsjármálum. Niðurstaðan var að í þremur þessara mála hafi ekki verið um brot á siðareglum að ræða. Tveimur kvörtunum var vísað frá með vísan í 16. grein vinnureglna siðanefndar.
Í henni segir: „Siðanefnd ber ekki skylda til að taka nafnlaus erindi til meðferðar.
Erindi sem varða atvik sem áttu sér stað fyrir meira en 10 árum eru ekki tekin til meðferðar.
Siðanefnd getur vísað erindi frá ef meira en tvö ár eru liðin frá því að atburður átti sér stað, atburðurinn er lítils háttar að mati siðanefndar og/eða sannanir eða vitnisburður ónógur.
Að öllu jöfnu tekur siðanefnd ekki erindi til meðferðar vegna mála sem rekin eru fyrir dómstólum á sama tíma.“
Þetta kemur fram í svari stjórnar Sálfræðingafélags Íslands við fyrirspurn DV vegna starfa sálfræðinga sem taka að sér störf dómkvaddra matsmanna og/eða sérfróðra dómenda í forsjármálum.
Færar leiðir fyrir kvartanir
Í tilkynningu frá Líf án ofbeldis sem sagt var frá um í síðasta mánuði kom fram að alls tíu mæður hafa sent kvörtun til embættis landlæknis vegna „ófaglegra vinnubragða og hlutdrægni sálfræðinga sem taka að sér hlutverk dómkvaddra matsmanna og sérfróðra meðdómsmanna í forsjármálum.“ DV hefur að undanförnu fjallað um þessar kvartanir og leitaði svara hjá Sálfræðingafélaginu til að fá nánari upplýsingar um þessi mál.
Í svarinu kemur fram að þær leiðir sem séu færar fyrir fólk sem er ósátt við vinnubrögð dómkvaddra matsmanna og/eða sérfróðra dómenda í forsjármálum og vill koma kvörtunum sínum á framfæri sé það embætti landlæknis sem hafi samkvæmt lögum um landlækni og lýðheilsu meðal annars það hlutverk að hafa eftirlit með heilbrigðisþjónustu og heilbrigðisstarfsfólki og að sinna kvörtunum almennings vegna heilbrigðisþjónustu. Þangað geti fólk beint kvörtunum sínum vegna heilbrigðisþjónustu. Ef um sálfræðing, sem er félagsmaður hjá SÍ, er að ræða má koma kvörtun til siðanefndar Sálfræðingafélags Íslands.
Hefur ekki eftirlitshlutverk
Sálfræðingafélagið hefur ekki upplýsingar um hvaða kröfur sálfræðingur þarf að uppfylla til að verða dómkvaddur matsmaður eða til að verða sérfróður dómandi í forsjármáli.
Þá bendir Sálfræðingafélagið á að dómkvaddir matsmenn starfi innan dómstólanna og félagi hafi þar með heldur ekki upplýsingar um hvernig matsmenn í forsjármálum séu valdir.
Sjá einnig: Þetta eru spurningarnar sem matsmennirnir þrír neita að svara
Einnig segir í svarinu að Sálfræðingafélagið sé fag- og stéttarfélag og hafi ekki eftirlit með störfum sálfræðinga, og þar með ekki eftirlit með því hvaða sálfræðingar starfa sem dómkvaddir matsmenn eða hafa heimild til að starfa sem slíkir.
Þá segir að félaginu hafi hvorki borist formlegar né óformlegar kvartanir frá félagsfólki vegna skipan dómkvaddra matsmanna, svo sem ásakanir um að „klíkuskapur“ sé á ferðinni eða með öðrum orðum að fáir útvaldir hljóti verkefnin á meðan aðrir hæfir sitja eftir með sárt ennið.