Vinir Gylfa Bergmanns Heimissonar sem lét lífið á voveiflegan hátt við heimili sitt í Barðavogi, laugardagskvöldið 4. júní síðastliðinn, telja útilokað að hann hafi getað átt einhver upptök að átökum við Magnús Aron Magnússon, manninn sem grunaður er um að hafa orðið honum að bana.
„Ég get skrifað nafnið mitt undir það allan daginn að hann myndi aldrei gera slíkt. Þegar ég sá frétt um þetta hugsaði ég að þetta hefði getað verið ég, hver sem er hefði getað lent í þessu. Þessi strákur var svo ljúfur og góður, maður man eftir honum með börnunum sínum í götunni heima,“ segir Þorvarður Goði Valdimarsson, fyrrverandi nágranni Gylfa frá þeim tíma er hann bjó í Hafnarfirði. Bjuggu þeir í húsum hvort á móti öðru á þessum tíma en eru báðir fluttir úr Hafnarfirði.
„Það eina í þessa átt sem ég gæti hugsanlega séð fyrir mér væri að hann hefði séð þennan strák vera að gera eitthvað sem hann átti ekki að gera og hafi beðið hann um að hætta því,“ segir Þorvarður, sem skrifaði þessi minningarorð um sinn gamla vin á Facebook:
„Skerandi sársauki að lesa að Gylfi Bergmann hafi verið myrtur á svona tilgangslausan og óskiljanlegan hátt. Ég hef ekki hitt ljúfari mann, kynntist honum lauslega þegar hann og fjölskylda hans bjuggu á Suðurgötunni í Hafnarfirði. Þá var hann að smíða fyrsta Gastro Truck bílinn, þvílíkur dugnaður og metnaður sem einkenndi hann, alltaf stutt í brosið og vinalegt viðmót. Ég vil votta börnum hans og fjölskyldu mínar innilegustu samúðarkveðjur“
Þorvarður segir að Gylfi hafi verið draumanágranni. „Þetta var bara gulldrengur. Þú vilt hafa svona mann í götunni þinni. Hann er að smíða, hann er að byggja, hann er framtakssamur og þessi próaktívi kraftur tekur samfélagið á hærri stað,“ segir Þorvarður. Að hans mati er Gylfi dæmi um mann sem lyftir upp sínu nærsamfélagi og því sé mikill missir af honum.
„Hann var bara mesti ljúflingur sem fyrirfinnst,“ segir vinkona Gylfa sem vill ekki láta nafn síns getið. „Ég veit ekkert um þetta mál eða þennan mann sem bjó þarna. Ég hef ekki komið í þetta hús og ég þekki Gylfa bara í gegnum veitingabransann. En ég get alveg staðfest að Gylfi er ekki maður sem ýtir undir átök. Hins vegar hefur maður heyrt alls konar orðróm um þennan aðila sem þarna var að verki. Ég þekki ekki til þessa einstaklings en veit um tvær fjölskyldur sem hafa flúið hverfið vegna hans.“
Hvorugur viðmælenda DV þekkir til Magnúsar Arons nema af afspurn. Þau hafa hins vegar heyrt og lesið um ofbeldisfulla hegðun hans og sögusagnir þess efnis að hann hafi þurft á þjónustu geðheilbrigðiskerfisins að halda sem hann hafi ekki fengið. Slíkt hefur ekki fengist staðfest en nágrannar sem DV hefur rætt við telja að Magnús Aron hefði ekki átt að búa í venjulega íbúðahverfi heldur hefði þurft á sértæku úrræði að halda.