„Ég er lasinn, engin spurning og geðheilbrigðiskerfið hefur brugðist mér svo oft, allt frá barnsaldri, en vonandi er eitthvað að gerast núna og ég ætla mér á betri stað,“ segir íslenskur maður sem birti sláandi myndband í morgun á samfélagsmiðlum, þar sem hann virðist vera undir umsátri lögreglu. Á myndbandinu má sjá lögreglumann að störfum fyrir utan bíl mannsins en atvikið virðist eiga sér stað einhvers staðar á Reykjanesi þar sem kunnuglegt, mosavaxið Suðurnesjahraun umkringir bílinn.
„Hérna eru tveir lögreglubílar, hérna eru fokking byssubílarnir, sjúkrabíll og bla bla,“ segir maðurinn en ekki er hægt að birta myndband hans þar sem það inniheldur viðkvæmar persónuupplýsingar um hann sjálfan og annað fólk. Hann nafngreinir meðal annars par sem hann segir hafa tilkynnt sig til lögreglu en hann segist einnig hafa hringt í lögreglu vegna fólksins.
Ljóst er af ræðu mannsins í myndbandinu að lögreglumennirnir eru að reyna að ná símasambandi við hann en hann vill ekki tala við þá.
Maðurinn er með nokkurn brotaferil að baki og hlaut síðast dóm í fyrra fyrir ofbeldi gegn fyrrverandi sambýliskonu sinni.
Ekki tókst að ná símasambandi við Lögregluna á Suðurnesjum vegna málsins en send var skrifleg fyrirspurn á embættið seint í dag. Beðið er svara lögreglunnar.