Eiginkona manns sem fékk 1,5 milljón króna í bætur frá íslenska ríkinu hafði áður kært hann fyrir að selja sig mansali og fyrir kynferðis- og ofbeldisbrot gegn sér. Bæturnar fékk hann vegna vegna aðgerða og þvingunarráðstafana sem hann mátti sæta við rannsókn lögreglu á meintum brotum mannsins, svo sem gæsluvarðhalds, einangrunar og húsleita á vinnustað og á heimili foreldra hans.
Dómur í bótakröfumáli mannsins féll í Héraðsdómi Reykjavíkur 2. júní.
Málið má rekja til þess að í janúar 2019 voru lagðar fram tvær kröfur til Héraðsdóms Reykjaness, annars vegar þar sem farið var fram á að fjarskiptafyrirtækjum yrði gert skylt að veita Lögreglustjóranum á Suðurnesjum tilteknar fjarskiptaupplýsingar tengd símtækjum og símanúmerum mannsins, og hins vegar að sama lögreglustjóra yrði veitt heimild til að hlusta á og hljóðrita símtöl, skilaboð í talhólfi og sms-sendingar úr og í símtæki mannsins.
Vísað var til þess að rannsókn stæði yfir á innflutningi á hættulegum ávana- og fíkniefnum sem talið var að maðurinn stæði fyrir. Þá væri sömuleiðis til rannsóknar kæra eiginkonu mannsins vegna meintra kynferðis- og ofbeldisbrota, sem og brotum tengdum vændi og mansali en brotin beindust að konunni.
Hann var síðar handtekinn og var látinn sæta gæsluvarðhaldi og einangrun vegna rannsóknarhagsmuna.
Þrátt fyrir umfangmikla rannsókn var málið gegn manninum fellt niður í júní 2020. Eiginkona mannsins var þá látin en í kaflanum „Sök sem bótagrundvöllur“ í dómnum segir: „Þá var andlát þáverandi eiginkonu stefnanda ekki til þess fallið að einfalda rannsókn málsins.“
Í kjölfarið höfðaði maðurinn mál gegn íslenska ríkinu og fór fram á rúmar 15 milljónir króna í miskabætur. Rök mannsins voru þær að rannsóknaraðgerðir lögreglu hafi verið óvenju umfangsmiklar auk þess sem að maðurinn hafi misst tekjur og að lokum atvinnu sína í kjölfar málsins.
Í rökstuðningi íslenska ríkisins segir að maðurinn hafi með ýmsum hætti stuðlað að þeim aðgerðum sem hann reisi kröfur sínar á.
Hann hafi til að mynda ekki verið samstarfsfús hvað varðaði aðgang að samfélagsmiðlareikningum sínum, Facebook og Snapchat, en töluvert af upplýsingum sem vörðuðu rannsókn málsins hafi fundist á Facebook-aðgöngum hans.
Þá hafi stefnandi í byrjun rannsóknarinnar ekki viljað kannast við eða ræða vændi eiginkonu sinnar. Þegar samskipti á Facebook á milli stefnanda og þáverandi eiginkonu hans hafi verið greind og borin undir hann hafi orðið ljóst að vitneskja um og þátttaka stefnanda í vændi eiginkonu hans hefði verið mun meiri en hann hefði gefið uppi í upphafi. Hann hafi í nokkur skipti tekið ljósmyndir af eiginkonu sinni sem notaðar hafi verið í vændisauglýsingar, hann hafi verið stjórnandi Facebook-síðu sem eiginkona hans hafi notað til að auglýsa sig á, auk þess að aka henni til viðskiptavina og sækja og panta hótelherbergi og íbúðir fyrir vændissölu hennar. Loks verði að líta til þess að þrátt fyrir neitun stefnanda í upphafi rannsóknar hafi hann notið einhverra tekna af vændinu.
Stefnandi hafi legið undir grun … að hafa haft atvinnu eða viðurværi af vændi eiginkonu sinnar og að hafa stuðlað með ginningum, hvatningum eða milligöngu að því að hún hefði samræði eða önnur kynferðismök gegn greiðslu og hafa haft af því tekjur. Meintur brotaþoli, eiginkona stefnanda, hafi hins vegar látist áður en rannsókn þessa þáttar málsins lauk og hafi frekari rannsókn því ekki verið talin líkleg til að varpa frekar ljósi á málið og verið hætt …
Rannsóknargögn beri þó með sér að stefnandi hafi frekar hvatt eiginkonu sína til að stunda vændi en að letja hana og að hann hafi, sameiginlega með henni, notið fjárhagslegs ávinnings af því. Með þeirri háttsemi sinni hafi stefnandi, óháð saknæmi athafnanna, stuðlað að þeim þvingunaraðgerðum sem hann hafi mátt þola af hálfu lögreglu vegna rannsóknar málsins.
Maðurinn fékk gjafsókn í málarekstri sínum gegn íslenska ríkinu. Alls krafðist maðurinn 15,1 milljón króna í skaða- og miskabætur frá ríkinu vegna málsins.
Í miskabótakröfunni vísað maðurinn meðal annars til „tjóns á æru og orðsporsmissi og að húsleitir á heimili foreldra hans og vinnustað hafi verið honum þungbærar“. Á þessum tíma dvaldi maðurinn á heimili foreldra sinna og var því talið að þar mætti finna rafræn gögn tengd málinu.
Héraðsdómur Reykjavíkur féllst á að maðurinn ætti rétt á miskabótum frá ríkinu vegna aðgerða lögreglu en ekki var fallist á að honum hafi tekist að sýna fram á atvinnumissi og fjártjóns vegna aðgerðanna og skaðabótakröfu því hafnað.